Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segja enn von um að fólk finnist á lífi í Ask

02.01.2021 - 12:29
Erlent · Hamfarir · Noregur · Evrópa
epa08914139 Rescue crews are working in the landslide area where a large landslide occurred at Ask in Gjerdrum municipality, Norway, 01 January 2021. Several homes have been taken by the avalanche and 10 people are missing. More than 1,000 people in the area have been evacuated.  EPA-EFE/Terje Bendiksby  NORWAY OUT
 Mynd: EPA-EFE - NTB
Norska lögreglan segir enn möguleika á að finna fólk á lífi í rústunum í Ask. Leit hófst snemma í morgun en hefur ekki borið árangur enn. Ida Melbo Øystese lögreglustjóri segir að fólk geti komst af dögum saman hafi það súrefni.

„Við lítum enn á þetta sem björgunaraðgerð,“ sagði Roy Alkvist sem stjórnar aðgerðum á fundi með fréttamönnum í morgun. Strax í dögun fóru björgunarsveitir inn á skriðusvæðið að nýju og hófu leit. Leitarsvæðið er örlítið stærra í dag en í gær. Á öðrum fréttamannafundi lögreglu á hádegi kom fram að þrjú teymi rústabjörgunarfólks séu að leit á svæðum þar sem talið er líklegast að finna fólk. 

Enn sem komið hafi engar manneskjur fundist en nokkrir bílar. Rúmir þrír sólarhringar eru liðnir frá því að jörðin gaf sig undan húsunum. Líkur á því að fólk finnist á lífi fara minnkandi með hverjum deginum en lögregla segir að enn sé von. Ida Melbo Øystese lögreglustjóri segir að fólk geti komst af dögum saman hafi það súrefni og það sé möguleiki í rústunum. Lögreglan boðar frekari upplýsingar klukkan tvö að íslenskum tíma. 

Tveggja ára stúlku saknað

Í gær fannst manneskja látin í rústunum en lögregla hefur ekki gefið neinar upplýsingar um hana en vonast til að geta greint frá nafni hennar í dag. Nöfn allra þeirra sem er saknað voru birt í gær. Þau eru tíu en talið er að manneskjan sem fannst látin í gær sé ein þeirra. Sú yngsta sem er saknað er tveggja ára stúlka, Alma Grymyr Jansen. Foreldra hennar er líka saknað. Eitt annað barn er á meðal þeirra sem er saknað, hin þrettán ára Victoria Emilie sem týndist í rústunum ásamt móður sinni en faðir hennar náði að koma sér út þegar hús þeirra féll. Á listanum yfir þau sem er saknað er einnig fimmtug kona sem býr ekki á hamfarasvæðinu en var þar á gangi með hundinn sinn. Rasa Lasinskie var að tala við eiginmann sinn í símann þegar samtalið slitnaði skyndilega og ekkert hefur spurst til hennar síðan.