Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

BioNTech keppist við að auka framleiðslugetu

01.01.2021 - 15:30
epa08376919 (FILE) - A view of signage of German biopharmaceutical company BionTech in Mainz, Germany, 18 March 2020 (reissued 22 April 2020). Reports on 22 April 2020 state the German regulatory body Paul-Ehrlich-Institute in a statement said they have authorized the first clinical trial of a vaccine against COVID-19 in Germany, developed by Biontech and US-based Pfizer. The Paul-Ehrlich-Institute also said 'it is a result of a careful assessment of the potential risk/benefit profile of the vaccine candidate.'  EPA-EFE/RONALD WITTEK
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þýska lyfjafyrirtækið BioNTech keppist nú við að auka framleiðslugetu á bóluefninu sem það þróaði í samvinnu við bandaríska lyfjarisann Pfizer. Með því segjast forsvarsmenn fyrirtækisins vilja bæta upp fyrir það hversu hægt hefur gengið fyrir önnur fyrirtæki að fá leyfi fyrir dreifingu í Evrópu. Bóluefnið er enn það eina sem Lyfjastofnun Evrópu hefur samþykkt.

„Þetta lítur ekki nógu vel út vegna þess að það hafa ekki fleiri fyrirtæki fengið leyfi fyrir bóluefni í Evrópu. Við verðum að fylla í þessa eyðu með okkar efni,“ segir Ugur Sahin, einn stofnenda BioNTech, í samtali við Der Spiegel.

Fyrirtækið stefnir á að opna nýja verksmiðju í þýsku borginni Marburg í febrúar og framleiða þar 250 milljón skammta í viðbót við þá sem áður hafði verið áætlað. Þá hafa forsvarsmenn fyrirtækisins gert samninga við fimm lyfjaframleiðendur um framleiðslu á efninu og viðræður standa nú yfir við fleiri fyrirtæki. „Það ætti að skýrast í lok janúar hversu mikið við getum framleitt,“ segir Sahin. 

Yfirvöld í Bretlandi, Kanada og Bandaríkjunum voru fyrri til en Evrópusambandið að samþykkja bóluefni Pfizer og BioNTech, og sum þeirra hafa nú þegar einnig veitt leyfi fyrir bóluefni fyrirtækjanna Moderna og Astra Zeneca. Óánægju gætir víða í Evrópu vegna þessa; í Þýskalandi og í Frakklandi kalla læknar í forgangshópum nú eftir því að bólusetning gangi hraðar, en þar hefur íbúum á hjúkrunarheimilum verið gefinn forgangur fram yfir þá.