Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Árið 2021 gengur í garð um heimsbyggð alla

01.01.2021 - 06:28
epa08913648 Members of the NYPD are seen guarding an empty Times Square after the New Year's Eve Ball drops in New York, New York, USA, 01 January 2021. Due to the coronavirus pandemic people were not allowed in to celebrate in Times Square.  EPA-EFE/JASON SZENES
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Árið 2021 gekk fyrst í garð í eyríkjunum Kiribati og Samoa í Kyrrahafi. Næst hófst nýja árið á Nýja-Sjálandi þar sem fjölmenni safnaðist saman í miðborg höfuðborgarinnar Auckland og fylgdist með flugeldasýningu.

Öllu fámennara var á götum úti í Sydney í Ástralíu þótt þar væri einnig skotið flugeldum á loft. Víða um heim var lögregla og í sumum tilfellum hermenn á götum úti til að fylgjast með að útgöngubanni væri framfylgt eða til að gæta þess að fólk safnaðist ekki saman í of stórum hópum.

Þúsundir söfnuðust saman í Wuhan í Kína þar sem kórónuveirufaraldurinn kom fyrst upp fyrir rúmu ári. Í Tókýó í Japan stóð grímuklætt fólk í röðum eftir að geta farið með nýársbænir sínar og nokkrir Hong Kong-búar komu saman við Viktoríu-höfn og tóku sjálfsmyndir. 

Vladimir Pútín Rússlandsforseta varð þungbær önnur bylgja faraldursins þar í landi að umtalsefni í nýársávarpi sínu; „Við gefumst aldrei upp í baráttunni við veiruna,“ sagði hann. Algert útgöngubann ríkir á Ítalíu þar sem faraldurinn hefur náð nýjum hæðum. 

Í Lundúnum komu nokkrir tugir saman til að hlusta á Big Ben slá ellefu, stundina þegar brotthvarf Bretlands úr Evrópusambandinu varð að raunveruleika. Lögregla skipaði fólkinu að halda heim til sín fyrir miðnætti.

Lögregla og slökkvilið í Kaupmannahöfn man vart eftir jafn-rólegri nýársnótt. Hið sama á við um Danmörku alla. Nokkur mannfjöldi safnaðist saman á Ráðhústorginu undir miðnættið en hvarf fljótlega á braut eftir að nýja árið gekk í garð. 

Angela Merkel kanslari Þýskalands minnti á, í nýársávarpi sínu, að faraldurinn væri ekki að baki þótt bóluefni kveiktu von bjartari tíma. Ennþá væru erfiðir tímar framundan en það væri undir hverjum og einum komið hvernig komist yrði gegnum heimsfaraldurinn.

Íslendingar horfðu á áramótaskaupið og skutu upp flugeldum líkt og um önnur áramót, sem skilja eftir sig mikla svifryksmengun á höfuðborgarsvæðinu.

Íbúar á Seyðisfirði röðuðu kertum umhverfis Lónið við ósa Fjarðarár og í áramótaávarpi sínu sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að framundan væri ár viðspyrnu.

Borgaryfirvöld í New York-borg bönnuðu aðgengi að Times Square vegna kórónuveirufaraldursins en venjan er að ár hvert safnist þúsundir saman þar til að fagna nýju ári.

Strendurnar við Río De Janeiro í Brasilíu eru einnig mannlausar þegar kórónuveirufaraldursárið 2020 kveður heimsbyggðina.

Í samtölum sem fréttamenn AFP fréttastofunnar áttu við fólk um víða veröld virðist ríkja bjartsýni um að árið 2021 verði betra en 2020. Nýja árið gengur seinast í garð á Howland og Baker eyjum, óbyggðum eyjum  í Norður-Kyrrahafi.