Árlega er tekinn saman listi yfir vinsælustu leitarorðin á leitarvélinni Google í hverju landi fyrir sig. Þetta eru reyndar ekki þau leitarorð sem mest voru slegin inn, heldur þau sem hafa aukist mest í vinsældum frá árinu áður.
Á meðan lúsmý og Hatari voru meðal vinsælustu leitarorðanna hér á landi í fyrra kemur það líklega fáum á óvart að orð tengd kórónuveirunni eru fyrirferðarmikil á listanum yfir vinsælustu leitarorð ársins 2020. Eitthvað voru landsmenn líka áhugasamir um forsetakosningar í Bandaríkjunum, í öðru sæti er Elections 2020. Í þriðja sæti er nafn körfuboltamannsins Kobe Bryant, sem lést í þyrluslysi í janúar. Ferðagjöf er fjórða vinsælasta leitarorðið, ferðagjöf stjórnvalda sem vel á annað hundrað þúsund Íslendingar hafa sótt. Aðstæður námsmanna breyttust talsvert á árinu, og kemur því líklega ekki á óvart að námsforritið Google Classroom sé í fimmta sæti.
Joe Biden er áttunda vinsælasta leitarorð ársins, nafn mannsins sem verður forseti Bandaríkjanna 20. janúar. Hann hefur talsvert verið til umfjöllunar hjá Fox News, sem er níunda vinsælasta leitarorðið. Tíunda vinsælasta leitarorðið hér á landi árið 2020 er svo heiti tölvuleikjarins Among Us.
- Coronavirus
- Elections 2020
- Kobe Bryant
- Ferðagjöf
- Google Classroom
- Kórónaveiran á Íslandi
- Coronavirus tips
- Joe Biden
- Fox News
- Among us