Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Vinsælustu leitarorð Íslendinga árið 2020

Mynd: RÚV/Grafík / RÚV/Grafík
Kórónuveirufaraldurinn setti mark sitt á þau leitarorð sem voru vinsælust hjá Íslendingum í leitarvélinni Google á árinu. Forsetakosningar í Bandaríkjunum virðast einnig hafa verið landsmönnum hugleiknar.

Árlega er tekinn saman listi yfir vinsælustu leitarorðin á leitarvélinni Google í hverju landi fyrir sig. Þetta eru reyndar ekki þau leitarorð sem mest voru slegin inn, heldur þau sem hafa aukist mest í vinsældum frá árinu áður. 

Á meðan lúsmý og Hatari voru meðal vinsælustu leitarorðanna hér á landi í fyrra kemur það líklega fáum á óvart að orð tengd kórónuveirunni eru fyrirferðarmikil á listanum yfir vinsælustu leitarorð ársins 2020. Eitthvað voru landsmenn líka áhugasamir um forsetakosningar í Bandaríkjunum, í öðru sæti er Elections 2020. Í þriðja sæti er nafn körfuboltamannsins Kobe Bryant, sem lést í þyrluslysi í janúar. Ferðagjöf er fjórða vinsælasta leitarorðið, ferðagjöf stjórnvalda sem vel á annað hundrað þúsund Íslendingar hafa sótt. Aðstæður námsmanna breyttust talsvert á árinu, og kemur því líklega ekki á óvart að námsforritið Google Classroom sé í fimmta sæti. 

Joe Biden er áttunda vinsælasta leitarorð ársins, nafn mannsins sem verður forseti Bandaríkjanna 20. janúar. Hann hefur talsvert verið til umfjöllunar hjá Fox News, sem er níunda vinsælasta leitarorðið. Tíunda vinsælasta leitarorðið hér á landi árið 2020 er svo heiti tölvuleikjarins Among Us. 

 1. Coronavirus
 2. Elections 2020
 3. Kobe Bryant
 4. Ferðagjöf
 5. Google Classroom
 6. Kórónaveiran á Íslandi
 7. Coronavirus tips
 8. Joe Biden
 9. Fox News
 10. Among us
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Grafík

Þá er sömuleiðis tekinn saman listi yfir þau mannanöfn sem landsmenn flettu oftast upp á árinu. 

Í tíunda sæti er George Floyd, Bandaríkjamaðurinn sem lögregla myrti í maí. Í því níunda, Michael Jordan, en mörg nýttu heimavist á árinu í að horfa á heimildarþættina The Last Dance á Netflix. Alexander Peterson gaf kost á sér í handboltalandsliðið á nýjan leik fyrir EM á árinu og er í áttunda sæti yfir þau nöfn sem oftast var flett upp. Í sjöunda sæti er Anna Aurora Waage Óskarsdóttir,  sem var grunuð um að hafa villt á sér heimildir þegar hún var bakvörður á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík. Donald Trump, fráfarandi forseti Bandaríkjanna, er svo í sjötta sæti á listanum og Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands í því fimmta.

Í fjórða sæti er Hildur Guðnadóttir, tónskáldið sem fékk Óskarsverðlaun fyrr á árinu. Í þriðja sæti er nafn Kim Jong-Un leiðtoga Norður-Kóreu, en fregnir af andláti hans fyrr á árinu reyndust stórlega ýktar. Í öðru sæti er svo verðandi forseti Bandaríkjanna, Joe Biden. Sá einstaklingur sem flestir Íslendingar flettu upp á Google á árinu er svo Kobe heitinn Bryant.

 1. Kobe Bryant
 2. Joe Biden
 3. Kim Jong-un
 4. Hildur Guðnadóttir
 5. Vigdís Finnbogadóttir
 6. Donald Trump
 7. Anna Aurora Waage Óskarsdóttir
 8. Alexander Petersson
 9. Michael Jordan
 10. George Floyd