Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Útihús í Merkinesi í Höfnum brann til kaldra kola

31.12.2020 - 15:11
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Útihús við bæinn Merkines í Höfnum á Reykjanesi brann til kaldra kola í nótt. Tilkynnt var um eldinn á öðrum tímanum í nótt og þegar slökkvilið kom á staðinn var húsið alelda og hrunið að hluta. Asbest klæðning var í húsinu og því var reykurinn frá brunanum sérlega varasamur og hættulegur.

Víkurfréttir greina frá brunanum og birta myndskeið og ljósmyndir af vettvangi. Greinilegt er að eldurinn var talsverður og húsin gjörónýt. Íbúar í Suðurnesjabæ, bæði í Sandgerði og Garði urðu varir við sterka brunalykt í nótt. 

Allt tiltækt slökkvilið á Suðurnesjum var kallað til og gekk greiðlega að ráða niðurlögum eldsins. Engan sakaði í brunanum og er ekki vitað um eldsupptök að svo stöddu. Húsið var klætt með asbestklæðningu að hluta. Asbest klæðning er krabbameinsvaldandi og því þurfti að fara sérstaklega varlega í slökkvistarfinu.  

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV