Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Katrín Jakobsdóttir segir 2021 vera ár viðspyrnu

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Katrín Jakobsdóttir sagði í áramótaávarpi sínu í kvöld að hjálpa þyrfti fólki, fjölskyldum og efnahagslífinu af stað á ný. Árið 2021 væri ár viðspyrnu.

Ríkissjóði hafi verið beitt til að styðja við fólk og fyrirtæki og halli ríkissjóðs því í sögulegu hámarki. Sú ákvörðun hafi verið tekin að verja velferðina og tryggja að Ísland verði áfram jafnaðarsamfélag.

Beita þurfi sömu aðferðum áfram á næsta ári en bóluefni auki bjartsýni á að allt verði eins og fyrir faraldurinn. „Sú stefna hvílir á þeirri bjargföstu trú okkar að við munum vaxa út úr þessarri kreppu og hagkerfið sem koma mun út úr kófinu geti orðið sterkara en áður ef við höldum áfram að styðja við aukna verðmætasköpun og fjölbreytni í öllum atvinnugreinum.“

Katrín sagði að íslenskir stjórnmálamenn hafi ekki látið faraldurinn snúast um sig. Það sé heilbrigðismerki á íslenskum stjórnmálum. Katrín minntist snjóflóðanna sem féllu í Súgandafirði og á Flateyri í janúar og skriðufallanna á Seyðisfjörð í desember.

Hún vitnaði í íbúa á Seyðisfirði sem sagði: „Það varð ekkert manntjón og þess vegna er framtíðin áfram hér, þess vegna byggjum við núna bara upp.“ Atburðirnir sagði Katrín að sýni mikilvægi þess að efla innviðauppbyggingu. Nú væri tími viðspyrnu.

„Þrátt fyrir erfitt ár þá hefur birtan verið yfirsterkari myrkrinu, jafnvel á dimmustu stundunum. Við kveðjum þetta ár, kannski ekki með mikilli eftirsjá, en göngum inn í framtíðina bjartsýn og með vissuna um að við stöndum styrkum fótum í okkar öfluga og góða samfélagi,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í áramótaávarpi sínu.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV