Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Illræmdur fjöldamorðingi deyr í fangelsi

31.12.2020 - 03:45
Samuel Little, who often went by the name Samuel McDowell, leaves the Ector County Courthouse after attending a pre-trial hearing Monday, November 26, 2018 in Odessa, Texas. McDowell was convicted of three murders, but now claims that he was involved in approximately 90 killings nationwide.  Investigators already have corroborated about a third of those, a Texas prosecutor said.  (Mark Rogers/Odessa American via AP)
 Mynd: ASSOCIATED PRESS - Odessa American
Samuel Little sem álitinn er mesti fjöldamorðingi Bandaríkjanna dó í fangelsi í Kaliforníu í gær, áttræður að aldri. Little játaði að hafa orðið 93 að bana á árabilinu 1970 til 2005.

Flest fórnarlamba hans voru konur og glæpi sína framdi hann um gjörvöll Bandaríkin. Algengt var að andlátin væru lítt eða ekkert rannsökuð en það voru fyrst og fremst eiturlyfjafíklar og vændiskonur sem urðu fyrir barðinu á Little.

Hann notaði engin vopn önnur en hendurnar við verknaðinn og því gátu rannsakendur illa áttað sig á að morð hefðu verið framin. Iðulega var álitið að fólkið hefði dáið af of stórum skammti eiturlyfja, af slysförum eða náttúrulegum orsökum.

Ekki hefur enn verið staðfest hvað varð Little að aldurtila en hann var dæmdur til þrefaldrar lífstíðarfangavistar án möguleika á náðun árið 2014. Hann var handtekinn fyrir vörslu fíknefna árið 2012 en glæpaferill hans nær allt aftur til ársins 1956. 

Þegar Little var kominn bak við lás og slá tók hann að játa á sig hvert morðið á fætur öðru og rannsókn Alríkislögreglunnar (FBI) staðfesti aðild hans að hið minnsta 50 morðum.