Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Faraldurinn ofarlega í hugum ráðherra í árslok

31.12.2020 - 12:08
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Heimsfaraldurinn var ofarlega í hugum Bjarna Benediktssonar og Katrínar Jakobsdóttur þegar fréttastofa tók þau tali fyrir ríkisráðsfund í morgun. Ríkisráð kom saman á Bessastöðum til fundar samkvæmt venju á gamlársdag.

„Ótrúleg þrautseigja hjá þjóðinni og það kom sér vel að hafa nýtt góðu árin til að geta tekið þetta ástand og mætt áskorunum af krafti.“ sagði Bjarni.

„Það er náttúrulega ekki hægt að svara þessarri spurningu án þess að nefna eitt stykki heimsfaraldur. Það er það sem hefur yfirskyggt allt annað á þessu ári en ég gæti líka nefnt ýmsar þær náttúruhamfarir sem við höfum verið að eiga, þannig að þetta er ár hamfara en þetta er líka ár sem hefur sýnt úr hverju íslenskt samfélag er gert,“ segir Katrín.

Alþingiskosningar fara fram á næsta ári. Þau segja að það geti haft áhrif á stjórnarsamstarfið.

„Það er nú það, það er alltaf þannig að lokaár kjörtímabils virkar þannig að allir eru mjög þandir á taugum og þannig verður það örugglega í ár eins og önnur kosningaár.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Katrín Jakobsdóttir við Bessastaði í morgun.

Hvenær er raunhæft að meirihluti þjóðarinnar verður orðinn bólusettur?

„Ef við miðum við þær áætlanir sem við erum með og eru í samfloti með ESB og Noregi þá erum við að tala um fyrri hluta árs 2021 en eins og fram hefur komið þá eru afhendingaráætlanir að breytast mjög reglulega hjá þessum fyrirtækjum svo ég ætla ekki að nefna neina dagsetningu.“  segir Katrín.

Hver er þín skoðun á því að lögreglan ætli að skoða viðburðinn í Ásmundarsal?

„Það var viðbúið og eðlilegt. Staðurinn hefur þegar sagt að það hafi ekki verið fylgt öllum reglum, svo það hlýtur að kalla á einhver viðbrögð,“ segir Bjarni.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Benediktsson við Bessastaði í morgun.