Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Áramótabrenna verður í Snæfellsbæ í kvöld

31.12.2020 - 12:28
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Áramótabrennur hafa verið slegnar af um allt land vegna kórónuveirufaraldursins. Í Snæfellsbæ verður þó brenna í kvöld, og fólki boðið að kveðja árið í gegnum bílrúðurnar.

Ljóst varð strax fyrir nokkrum vikum að fjöldatakmarkanir myndu koma í veg fyrir að áramótabrennur gætu farið fram með eðlilegum hætti og hinn 230 ára séríslenski siður þar með í uppnámi. Engar brennur verða á höfuðborgarsvæðinu og eftir því sem fréttastofa kemst næst hefur þeim verið aflýst alls staðar á landinu - nema á einum stað, en efnt er til áramótabrennu fyrir ofan Rif í Snæfellsbæ í kvöld. Þar á að fara fram það sem Kristinn Jónasson bæjarstjóri kallar bílabrennu, líkt og bílabíó. 

„Þannig við ætlumst til þess að fólk sitji inni í bílunum sínum og horfi á brennuna. Þannig getum við uppfyllt allar sóttvarnareglur og jafnframt leyft fólki að horfa á brennuna og svo flugeldasýningu á eftir.“

Hann kveðst treysta því að Snæfellsbæingar hlýti fyrirkomulaginu. Brennan verði fyrir ofan Rif þar sem nægt landrými sé til staðar og hægt að velja úr níu bílastæðum í mismunandi fjarlægð frá bálkestinum. Sveitarfélagið útfærði þetta í samráði við lögreglu. Brennan hefst klukkan sex í kvöld. 

Hlaðið í bálköst fyrir áramótabrennu í snæfellsbæ 2020. Fólki bauðst að horfa á brennuna út úr bílunum sínum.
 Mynd: Kristinn Jónasson - Aðsend
Lokið var við að hlaða bálköstinn í gær