Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Þór og Lagarfoss komnir langleiðina til lands

30.12.2020 - 12:44
Lagarfoss
 Mynd: Landhelgisgæslan - Ljósmynd
Ferð varðskipsins Þórs með Lagarfoss, flutningaskip Eimskips, í togi hefur gengið mun betur en búist við og áætlað er að skipin verði komin til hafnar í Reykjavíkur upp úr klukkan 13 í dag, en áætlað var að þau kæmu á morgun. Lagarfoss varð vélarvana úti á rúmsjó, um 230 sjómílur suðvestur af Garðskaga um hádegisbil á sunnudaginn og viðgerðir um borð báru ekki árangur. Þór lagði af stað til aðstoðar þá um kvöldið.

Þór var kominn á staðinn um klukkan tvö aðfaranótt gærdagsins og gekk vel að koma taug á milli skipanna, að sögn Ásgeirs Erlendssonar upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar. Hann segir að ferðin hafi gengið miklu betur en búist var við, veður sé afar gott og að þau verði við sjö-baujuna, við innsiglinguna að Reykjavíkurhöfn, upp úr klukkan 13.

Þá fer Lagarfoss að Sundahöfn en Þór til bryggju við Faxagarð.

Lagarfoss

Myndin er tekin af skipverjum Þórs og sýnir Lagarfoss í togi.