Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skipulagsstofnun leggst gegn Svartárvirkjun

Lindir í Suðurárbotnum. Upptök Svartár eru annars vegar í Svartárvatni og hins vegar í lindum í Suðurárbotnum.
Lindir í Suðurárbotnum. Upptök Svartár eru annars vegar í Svartárvatni og hins vegar í lindum í Suðurárbotnum. Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Umhverfisáhrif af að virkja Svartá í Bárðardal í Þingeyjarsveit verða verulega neikvæð, segir í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Svartárvirkjunar. Yrði áin virkjuð myndu mikil náttúruverðmæti raskast verulega, segir ennfremur. Þá segir að Þingeyjarsveit ætti að endurskoða áform um gera ráð fyrir virkjuninni í aðalskipulagi.

Félagið SSB orka ehf. hefur haft áform um að reisa 9,8 MW vatnsaflsvirkjun í Svartá. Gert er ráð fyrir að stífla Svartá „um 500 m fyrir ofan ármót Svartár og Grjótár. Vatn verður leitt um aðrennslispípu um 3 km leið að stöðvarhúsi sem verður staðsett um 1,5 km ofan við ármót Svartár og Skjálfandafljóts. Virkjunin mun leiða til skerðingar á rennsli Svartár á um 3 km kafla á milli stíflu og frárennslisskurðar frá stöðvarhúsi,“ segir í fréttatilkynningu Skipulagsstofnunar. 

Þá segir að vatnasvið Svartár og Suðurár hafi mikið verndargildi. Þær eru lindár sem eiga uppruna í lindarvatninu Svartárvatni og lindum sem spretta fram í Suðurárbotnum í Ódáðahrauni. Þetta séu „einar lífríkustu og vatnsmestu lindár landsins sem renna um blásin hraun í umhverfi þar sem inngrip mannsins eru lítil auk þess sem vatnasviðið er talið alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði.“

Jafnframt segir að verði Svartá virkjuð raski það votlendi og jarðminjum sem njóta sérstakrar verndar. Mestu áhrifin af framkvæmdunum séu þó á vatnafar og lífríki vatnsfalls með mikið verndargildi. Þá raski virkjun sérstæðu landslagi sem ætla megi að hafi mikið upplifunargildi.

Þingeyjarsveit beið með breytingu á aðalskipulagi meðan Skipulagsstofnun mat umhverfisáhrif virkjunar. „Skipulagsstofnun telur niðurstöður umhverfismatsins gefa tilefni til að endurskoða áform um að gera ráð fyrir Svartárvirkjun í aðalskipulagi Þingeyjarsveitar,“ segir í niðurstöðum matsins.