Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Miklar breytingar í nýjum lögum um fæðingarorlof

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fyrsta janúar taka gildi breytingar á lögum um fæðingarorlof og er helsti munurinn frá fyrri lögum að það lengist úr tíu mánuðum í tólf. Heimildir til framsals fæðingarorlofsréttar eru rýmkaðar mikið og ýmislegt annað breytist sömuleiðis.

Frumvarpið var lagt fram af Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra. Það var samþykkt á þingi 18. desember og taka lögin gildi um áramótin. Markmið þeirra er að tryggja barni samvistir við báða foreldra og gera þeim kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf, að því er segir annarri grein laganna. Alls verður 19,1 milljarði króna varið í fæðingarorlof á árinu 2021. Þetta er tæp tvöföldun á þeirri upphæð sem fór til fæðingarorlofs 2017 á verðlagi hvors árs samkvæmt frétt á vef Stjórnarráðsins.

Lenging á rétti foreldra til fæðingarorlofs og fæðingarstyrks um tvo mánuði gildir fyrir foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar eða síðar. Einnig stofnast réttur til fæðingarorlofs við fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu eða andvanafæðingu eftir 22 vikur.

Rýmri heimildir um framsal orlofs

Lögin veita frekari heimildir til framsals fæðingarorlofs þegar annað foreldrið hefur hvorki rétt til töku fæðingarorlofs/fæðingarstyrks hérlendis né heldur sjálfstæðan rétt til töku orlofs í sínu heimaríki. Einnig í þeim tilfellum þegar umgengni annars foreldris við barnið er engin eða sætir verulegum takmörkunum, undir eftirliti einvörðungu, á grundvelli niðurstöðu lögmælts stjórnvalds eða dómstóla. Forsjárforeldri þarf að sækja um tilfærslu réttinda til Vinnumálastofnunar.

Foreldrar sem eiga von á barni fá rétt á sérstökum styrk vegna skerts aðgengis að fæðingarþjónustu þegar foreldrið þarf að mati sérfræðilæknis að dvelja fjarri heimili sínu fyrir áætlaðan fæðingardag vegna nauðsynlegar þjónustu í tengslum við fæðingu barnsins.

Verða að nýta réttinn fyrir tveggja ára aldur barns

Samkvæmt lögunum er hvoru foreldri tryggt hálft ár í orlof en þau heimila einnig að annað foreldri framselji sex vikur orlofs til hins. Þrátt fyrir að foreldrar fái rétt til orlofs við fæðingu er hægt að hefja það allt að einum mánuði fyrir settan fæðingardag með staðfestingu frá ljósmóður samkvæmt áttundu grein laganna.

Foreldrar tapa rétti sínum til orlofs þegar barn nær tveggja ára aldri, hafi þeir ekki fullnýtt rétt sinn fyrir þann tíma. Foreldri sem fæðir barn þarf að vera í fæðingarorlofi fyrstu tvær vikurnar frá fæðingu.

Frumættleiðingar eða varanlegt fóstur

Við frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur stofnast réttur til fæðingarorlofs þegar barn kemur á heimilið þar sem barnaverndarnefnd eða aðrir réttmætir aðilar staðfesta það. 

Þegar barn kemur um inn á heimili á reynslutima áður en frumættleiðing eða varanlegt fóstur á sér stað miðast réttur til fæðingarorlofs við upphaf þess tíma þar sem barnaverndarnefnd eða aðrir réttmætir aðilar staðfesta það. 

Þurfi að sækja barnið til annars lands er heimilt að miða við að réttur til fæðingarorlofs stofnist er ferðin hefst, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest frumættleiðingu. Sama regla gildir og um aðra foreldra, nýta þarf réttinn innan tveggja ára frá því að barnið kemur inn á heimilið.

Þegar annað foreldrið er ekki fært um að feðra barn sitt, eða er einhleypt foreldri fer í tæknifrjóvgun, frumættleiðir eða tekur barn í varanlegt fóstur fær það tólf mánaða orlofsrétt. Í þeim tilfellum þar sem annað foreldri sætir nálgunarbanni gagnvart barni sínu eða hinu foreldrinu eða hefur verið vísað brott af heimilinu og getur því ekki uppfyllt skyldur sínar, færist fæðingarolofsrétturinn til þess foreldris sem það getur.

Látist annað foreldrið áður en barn nær tveggja ára aldri og hefur ekki fullnýtt fæðingarorlofsrétt sinn færist hann til eftirlifandi foreldris. Sé foreldri ófært um að annast barnið vegna sjúkdóms eða slyss á fyrstu tveimur árum ævi barnsins er foreldrinu heimilt að framselja ónýttan rétt sinn. Foreldri sem er vegna afplánunar refsivistar ekki fært að annast barn sitt á fyrstu tveimur árum eftir fæðingu þess má framselja rétt sinn til fæðingarorlofs, sem það hefur ekki þegar nýtt sér, til hins foreldrisins að hluta eða öllu leyti.