Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Klakinn keppir um að búa til besta spálíkanið

Mynd með færslu
 Mynd: webmd
Hópur íslenskra vísindamanna sem kallar sig Klakann tekur þátt í alþjóðlegri keppni í gerð spálíkana fyrir kórónuveirufaraldurinn. Ýmis gögn eru notuð til að spá fyrir um hegðun faraldursins og vænst er til þess að nýta megi líkanið í framtíðinni til að spá fyrir um þróun faraldra.

Alexander Berg Garðarsson sérfræðingur í gagnavísindum er einn liðsmanna Klakans, en auk hans eru þar Thor Aspelund, Kári Rögnvaldsson og Rafael Vias

Keppnin hófst fyrir viku og er haldin á vegum bandaríska fyrirtækisins Xprize. 200 lið taka þátt í henni, verðlaunaféð nemur hálfri milljón bandaríkjadollara og er tilgangurinn að búa til líkan sem getur spáð fyrir um þróun faraldursins í 180 löndum. Til grundvallar spánni eru meðal annars lagðar sóttvarnaaðgerðir í einstökum löndum, hversu mikið af bóluefni þau fá og gögn um hegðun fólks sem safnað er á samfélagsmiðlum. Vænst er til þess að nýta megi líkanið í framtíðinni til að spá fyrir um þróun faraldra.

Alexander hefur einnig unnið að gerð spálíkans Háskóla Íslands. Hann segir líkanið sem unnið er með í keppninni taki tillit til fleiri þátta. „Það tekur inn upplýsingar frá öðrum löndum, Íslandi þar á meðal, og lærir af reynslunni. Þannig getum við horft á hvaða aðgerðir voru í gangi hér á Íslandi frá því í mars og til dagsins í dag og hvaða áhrif það hafði á dreifingu veirunnar og líka í öðrum löndum. Módelið lærir í rauninni af því og sér þá allskonar mynstur sem eru of flókin fyrir menn til að átta sig á.

Fyrri hluta keppninnar lýkur um miðjan janúar og eftir það halda þau 50 lið áfram, sem hafa komist næst því að spá fyrir um þróun faraldursins. Sá hluti snýst einnig um að mæla með aðgerðum til að stemma stigu við faraldrinum.

Alexander segir að bólusetningar sem nú eru víða hafnar hafi veruleg áhrif á líkanið. „Þá þarf að bæta einhverju við eða leyfa gögnum að safnast upp um það hvernig bólusetningar munu hafa áhrif.“