Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bogi segir óraunhæft að reka tvö flugfélög á Íslandi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir engan veginn raunhæft að reka tvö flugfélög á Íslandi með Keflavíkurflugvöll sem tengimiðstöð. Það hafi verið reynt tvisvar áður en slíkur rekstur sjáist aðeins á stórum alþjóðaflugvöllum.

Þetta segir Bogi í samtali við Markað Fréttablaðsins í dag en hann er að mati dómnefndar blaðsins maður ársins í íslensku viðskiptalífi. Nafnbótina hlýtur hann fyrir að hafa leitt Icelandair gegnum endurskipulagninu og hlutafjárútboð við erfiðar aðstæður.

Bogi kveðst ekki óttast samkeppni en fámenni heimamarkaðarins geri óraunhæft að reka tvö flugfélög í landinu. Fram kemur í umfjöllun blaðsins að forsvarsmenn Play Air hafi sagst reiðubúnir að hefja flugrekstur um leið og tækifæri gefist og langtímafjármögnun sé í höfn. 

Haft er eftir Boga að ferðamannasumarið geti orðið ágætt verði núgildandi sóttvarnarreglum við landamæri breytt fyrir 1. mars, til að mynda. Dragist það fram í maí eða júní segir Bogi ljóst að sumarið sé í raun farið.