Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Áramótin geta reynst dýrum erfið

30.12.2020 - 20:39
Mynd: flickr.com / flickr.com
Heyrn dýra er næmari en mannfólks og gerir þau viðkvæm fyrir flugeldum. Vel þarf að gæta að þeim yfir áramótin, segir Þóra Jónasdóttir dýralæknir hjá Matvælastofnun. Lögregla fékk í gær nokkur símtöl vegna þeirra sem byrjaðir eru að fagna áramótunum með flugeldum.

Matvælastofnun biðlar til dýraeigenda að huga sérstaklega vel að þeim um áramótin þegar margir fagna nýju ári með að sprengja flugelda. Samkvæmt lögum um dýravernd eru dýr skyni gæddar verur og því skal taka tillit til þeirra á þann hátt.

Hestar eru einkum viðkvæmir fyrir flugeldum og segir Þóra hættu skapast þegar flugeldar eru sprengdir er fólk er á hestbaki. 

„Ég myndi vilja beina boðskapnum ekki síður til þeirra sem eru að skjóta, til dæmis að sleppa að skjóta um hábjartan daginn, sérstaklega nálægt hesthúsahverfum. Bæði sést það lítið og það er lítil ánægja af því en getur valdið töluverðri hættu,“ segir Þóra.

Breytingum á reglugerð um sölu flugelda hefur verið frestað vegna COVID-19 faraldursins. Því má selja flugelda í jafnmarga daga um þessi áramót og áður. Þóra segir núverandi tímabil, frá 28. desember til og með 6. janúar, heldur langt. Samkvæmt nýju reglugerðinni yrði aðeins heimilt að selja flugelda í þrjá daga; 30. desember, 31. desember og 1. janúar.

Hægt að þjálfa viðbrögð dýra

Hún segir mikilvægt að fólk fari eftir settum reglum um tímamörk á notkun skotelda og hætti að skjóta þeim upp eftir klukkan tíu að kvöldi. Það sé mikilvægt fyrir dýr ekki síður en fólk. Til dæmis þurfi hundaeigendur að geta farið út með dýr sín í göngutúr án þess að þurfa að óttast að hávaði og blossar sem flugeldum fylgja styggi þau.

Þóra segir hægt að lágmarka viðbrögð dýranna við flugeldum og best sé að byrja undirbúning snemma, með því að spila til dæmis flugeldahljóð fyrir þau og nota róandi ferómón. Ef eigendur séu ekki byrjaðir að þjálfa dýrin við hávaðanum fyrir þessi áramót sé það of seint og betra að huga að því fyrir næsta ár.

Dýralæknar geta skrifað upp á kvíðastillandi lyf fyrir þau dýr sem flugeldarnir hræða mjög. Einnig er mikilvægt að halda dýrunum inni á meðan mest gengur á. Þóra segir að köttum eigi að halda alveg inni yfir þessa daga. Hvað hesta varðar segir Þóra að hestafólk eigi að fara að varlega og helst ekki ríða út þessa daga.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Þóru í Síðdegisútvarpi Rásar 2 hér að ofan.