
4875 landsmenn fengu bólusetningu
Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að bólusetningin hafi gengið afar vel. Bóluefnið var blandað og sett í sprautur á Suðurlandsbraut. Síðan komu lögreglumenn því til skila á hjúkrunarheimili. Ekki mega líða meira en fimm til sex klukkustundir frá því efnið er blandað þangað til því er sprautað í fólk.
Reyna að komast fyrr í bólusetningu
Óskar segir að enginn hafi sýnt sterk ofnæmisviðbrögð við bólusetningunni. Nokkuð sé um að fólk hafi haft samband við heilsugæslustöðvar í dag til að falast eftir bólusetningu. Það stoðar þó lítið því fylgt er reglugerð um forgangsröðun í bólusetningu.
Þau sem bólusett voru í gær, íbúar hjúkrunarheimila og heilbrigðisstarfsfólk í framlínu, fá svo seinni skammt af bóluefninu eftir þrjár vikur. Þeir skammtar eru í öruggri geymslu Distica sem sér um dreifingu á bóluefninu en geyma þarf það við áttatíu stiga frost.
Þeir elstu næstir í röðinni
Næsti hópur sem verður bólusettur eru elstu íbúar landsins. Anna María Snorradóttir, verkefnastjóri á sóttvarnasviði landlæknisembættisins, segir að búist sé við að næsti sending frá Pfizer komi í kringum 20. janúar. Þá er búist við 3000 skömmtum sem duga fyrir 1500 manns. Gangi það eftir er viðbúið að unnt verði að bólusetja 90 ára og eldri en líklega ekki fleiri.
Líkt og tilgreint er í upplýsingum frá Pfizer reyndust vera fimm skammtar í hverju glasi af bóluefni. Í Bandaríkjunum náðust sums staðar sex skammtar úr einu glasi. Það var ekki raunin hér á landi.