Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Óvissustigi vegna jarðskjálfta á Norðurlandi aflýst

Skjálftavirkni á Tjörnesbrotabeltinu
 Mynd: Veðurstofa Íslands - Kort
Óvissustigi vegna jarðskjálfta, sem hefur verið í gildi á Norðurlandi frá 20. júní, hefur verið aflýst. Því var lýst yfir vegna jarðskjálftahrinu sem hófst um 20 km NA við Siglufjörð. Á fyrstu þremur vikunum eftir að skjálftarnir hófust í júní mældust yfir 13 þúsund jarðskjálftar með sjálfvirku staðsetningakerfi Veðurstofunnar.  Stærstu skjálftarnir urðu á fyrstu dögum hrinunnar og mældust þeir yfir 5 að stærð.

Hrinan er á Tjörnesbrotabeltinu, sem er annað tveggja þverbrotabelta hér á landi og tengir suðurenda Kolbeinseyjarhryggjar við Norðurgosbeltið. Fram að miðjum október urðu þar reglulega skjálftar yfir 4 að stærð og nokkrar hrinur.

Í tilkynningu frá Almannavörnum segir að skjálftavirkni á Tjörnesbrotabeltinu hafi verið nokkuð stöðug undanfarnar vikur. Síðustu tvær vikur hafa um 60 skjálftar mælst þar í hvorri vikunni. Síðast varð skjálfti þar yfir 3 að stærð 2. desember og þar áður 19. nóvember, báðir voru þeir 3,1 að stærð. Þann 6. október varð síðast skjálfti yfir 4 að stærð en honum fylgdi töluvert aukin virkni og nokkrir skjálftar á milli 3 og 4 að stærð. Þeir voru staðsettir norðan við Gjögurtá.

Jarðskjálftavirknin undanfarna mánuði hefur aukist tímabundið af og til og því ekki útilokað að virknin taki sig aftur upp á næstunni þótt virkni síðustu vikur hafi verið stöðug, segir í tilkynningunni.

Þar er áréttað að þrátt fyrir að óvissustigi sé aflýst, þá sé Tjörnesbrotabeltið virkt skjálftasvæði og stórir jarðskjálftar geta komið með litlum fyrirvara.  Því eru íbúar á þessu svæði hvattir til þess að huga reglulega að jarðskjálftavörnum, festa vel alla innanstokksmuni og ganga vel frá lausamunum sem geta valdið tjóni ef jarðskjálftar verða.