Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Langt í að nægt bóluefni komi til landsins

Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson, Vi / RÚV
Þótt stjórnvöld hafi samið um kaup á mörg hundruð þúsund skömmtum af bóluefni er langt þangað til þeir berast. Í fyrstu sjö forgangshópunum eru rúmlega 140 þúsund manns og því langt þar til aðrir verða bólusettir. 

20 þúsund í fyrstu forgangshópum

Í fyrstu fimm forgangshópunum eru um 20 þúsund manns. Í þeim er meðal annars heilbrigðisstarfsfólk, sjúkraflutningamenn, útkalls lögreglumenn og þeir sem dvelja á hjúkrunar- og dvalarheimilum og öldrunardeildum sjúkrahúsa. 

73 þúsund manns 60 ára og eldri

Í seinni helmingi forgangshópanna eru 60 ára og eldri, fólk með undirliggjandi langvinna sjúkdóma sem er í áhættuhópi, starfsfólk leik-, grunn og framhaldsskóla og í félags- og velferðarþjónustu þá einstaklingar í viðkvæmri stöðu vegna félags og efnahagslegra aðstæðna. 

Í síðasta hópnum eru allir aðrir sem óska bólusetningar. 

Í hópum sex til níu eru tugir þúsunda. Áætlað er að fólk með undirliggjandi sjúkdóma sé um 50 þúsund talsins. 

Á undan þeim í röðinni eru 60 ára og eldri. Í þeim hópi eru 73 þúsund manns. Byrjað verður að bólusetja þá elstu og svo koll af kolli. 50 manns eru 100 ára og eldri. Tæp 2300 eru 90 til 99 ára. 10 þúsund og 300 eru 80 til 89 ára, 23 þúsund eru 70 til 79 og rúmlega 37 þúsund eru 60 til 69 ára. 

Síðast í forgangsröðinni eru allir aðrir. Þeir eru samkvæmt tölum Hagstofunnar 223 þúsund og er það miðað við 15 til 59 ára. Vissulega verður einhver hluti þessa þegar búinn að fá bólusetningu. 

Engar dagsetningar - bara ársfjórðungar

Bóluefnið, sem kom í gær, dugar fyrir um fimm til sex þúsund manns. Ekki er ljóst hvort næsti stóri Pfizer skammtur kemur eftir mánuð eða smærri skammtar einu sinni í viku næstu vikurnar. Á vef heilbrigðisráðuneytisins er greint frá samningum um bóluefni. 

Frá Pfizer BioNTech koma samtals 250 þúsund skammtar sem duga fyrir 125 þúsund manns. Ekki er vitað um afhendingartíma. 

Á morgun skrifa stjórnvöld undir samning um bóluefni frá Moderna. Þá skýrist væntanlega hve mikið kemur en gert er ráð fyrir að afhending hefjist á fyrsta fjórðungi. 

Búið er að semja við Astra Zeneca um 115 þúsund skammta. Vonast er til að skammtar verði afhentir í Evrópu á næsta ársfjórðungi. 

Bóluefni Janssens og Johnson & Johnson er skemmra á veg komið. Búið er að semja um skammta fyrir 235 þúsund manns. Bóluefnið kemur í fyrsta lagi í júlí, ágúst eða september. 

Þá verður samið við CureVac og Sanofi en bóluefni þessara framleiðenda eru skemmra á veg komin. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson, Vi - RÚV
Sprauta með bóluefni undirbúin fyrir fjöldabólusetningu heilsugæslunnar.