Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Höfða mál til að geta afhent Lilju Pálmadóttur kirkju

29.12.2020 - 06:57
Mynd með færslu
 Mynd: Sveitarfélagið Skagafjörður
Hofssókn á Hofsósi þarf að að höfða eignardómsmál fyrir Héraðsdómi Norðurlands vestra til að geta afhent athafnakonunni Lilju Pálmadóttur timburkirkju frá árinu 1871 sem er staðsett á jörð Lilju, Hofi á Höfðaströnd. Til stóð að Lilja fengi kirkjuna eftir fund aðalsafnaðar í apríl á síðasta ári en það reyndist ekki hægt þar sem enginn þinglýstur eigandi var að kirkjunni.

Fram kemur í stefnu, sem birtist í Lögbirtingablaðinu, að á fundinum í apríl hafi verið gengið frá gjafabréfi þar sem félagi í eigu Lilju var afhent kirkjan.  Þar sem enginn þinglýstur eigandi reyndist vera að kirkjunni var ekki hægt að þinglýsa afsali. 

Hofssókn segir í stefnu sinni að kirkjan hafi áður verið í eigu Hjálmtýs Sigurðssonar, kaupmanns í Reykjavík. Viðræður hófstu árið 1914 um afhendingu hennar til safnaðarins til eignar og umráða. Afhending fór síðan fram 29. október 1915. 

Hofssókn segist alla tíð hafa hagnýtt eignina í safnaðarstarfi líkt og hún væri eign safnaðarins, sinnt umsjón hennar og viðhaldi og greitt af henni skatta og skyldur. 

Þar sem samningurinn vegna afhendingar kirkjunnar sé glataður sé nauðsynlegt að höfða eignardómsmál þannig að Hofssókn fái heimild til að ráða yfir og ráðstafa eigninni.

Skorað er á alla þá sem telja sig vera eiganda eða eiga rétt til Hofskirkju að mæta á dómþing Héraðsdóms Norðurlands vestra í byrjun febrúar á næsta ári. Að öðrum kosti megi búast við því að eignardómsdómur gangi í málinu í samræmi við kröfur Hofssóknar.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV