Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Hjólin gætu snúist hratt en atvinnuleysi er vandinn

29.12.2020 - 14:12
Mynd: Eddi / RÚV
Atvinnuleysið er mesta áhyggjuefnið í eftirmálum COVID-faraldursins segir Katrín Ólafsdóttir hagfræðingur og lektor við Háskólann í Reykjavík. Margir óvissuþættir hafa áhrif á hversu hratt efnahagurinn tekur við sér á næsta ári í kjölfar bólusetningar.

Stóri vandinn er atvinnuleysið

Katrín segir í viðtali við Spegilinn að það gleymist svolítið í umræðunni að útlitið fyrir ári síðan var að það myndi hægja á hagvexti á árinu 2020. Spárnar gerðu ráð fyrir 1,5% í hagvexti og atvinnuleysi upp á 3,8% samvæmt spá Seðlabanka Íslands frá því í nóvember 2019.  Horfurnar voru allt í lagi þó útlit væri fyrir minni hagvöxt en árið á undan.

„Svo brestur á með þessari veiru" segir Katrín. „Núna gerir Seðlabankinn ráð fyrir að það verði 8,5% samdráttur á þessu ári, en hagvöxtur upp á 2,3% á næsta ári. Eg tek fram að það er gríðarleg óvissa með þá tölu. Það gert ráð fyrir 5,9% atvinnuleysi á þessu ári, en 8,3% á næsta ári. Við sjáum ekki fyrir endann á atvinnuleysisvandanum og það er kannski stóra málið þegar horft er fram á veginn".

Lítil verðbólga þrátt fyrir veikingu krónunnar

„Góðu fréttirnar eru þær að þrátt fyrir að gengi krónunnar hafi veikst töluvert á þessu ári að þá eru verðbólguhorfur ekkert langt frá því sem þær voru. Það var gert ráð fyrir 2,3% verðbólgu, en nú er búist við að hún verði 2,9%. Þannig að við höfum ekki misst verðbólgu úr böndunum eins og gerðist 2008 og 2009.  Viðskiptajöfnuðurinn er enn þá jákvæður og mjög svipaður og gert var ráð fyrir, bæði innflutnings- og útflutningsmegin, þannig að jöfnuðurinn er svipaður". 

Mikill vandi á Suðurnesjum

„En stóru viðbrigðin núna eru auðvitað atvinnuleysið. Í lok nóvember voru tæplega 21 þúsund manns atvinnulaus hér á landi. Þetta eru náttúrulega tölur sem við eigum ekki að venjast. Þetta er yfir 10% atvinnuleysi. Við áttum von á því í hruninu að atvinnuleysi færi í 10%, en það fór eiginlega aldrei þangað. Breytingin frá því fyrir ári síðan er sú að við getum tekið atvinnuleysistölurnar þá og margfaldað þær með 2,5. 

Þetta er þó mismunandi eftir landsvæðum. Suðurnes hafa komið verst út. Þar er atvinnuleysi yfir 20%. Þar er staðan sú að einn af hverjum fimm karlmönnum er atvinnulaus og ein af hverjum fjórum konum. Þarna er gríðarlegur vandi fyrir höndum". 

Ungt fólk atvinnulaust

„Staðan á höfuðborgarsvæðinu er svipuð og á landinu í heild, rétt rúmlega 10% atvinnuleysi. Atvinnuleysið bitnar misjafnlega á hópum. Stærsti hópurinn meðal atvinnulausra er á aldrinum 25-35 ára. Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem eru atvinnulausir í byrjun starfsferils ná sér síður á strik seinna meir og því er þetta hópur sem við þurfum að halda vel utan um í framtíðinni".

Aðgerðir þurfa að vera vel ígrundaðar

Voru ráðstafanir stjórnvalda í vor, í upphafi faraldurs, réttar?

„Það er alltaf hægt að horfa í baksýnisspegilinn og segja; við áttum að gera betur. Margt af því sem þá var gert var vel gert. Hversu fljótt hlutabótaleiðin kom var mjög gott skref. Það gerðist hraðar en ég átti von á. Hún virkar kannski ekki vel í dag, en hún gerði það þá. Uppsagnarstyrkirnir voru mjög umdeildir og það hefði mátt skýra hugmyndafræðina á bak við þá betur.

Svo eru ákveðin atriði eins og lækkun á tryggingargjaldi, sem er almenn aðgerð. Það standa mörg fyrirtæki mjög vel og betur en þau gerðu áður.  Þau hafa sem sagt grætt á þessum faraldri. Aðgerðirnar þurfa því að vera vel fókuseraðar. Þetta er rándýrt. Það verður halli á ríkissjóði, mikil skuldaaukning og við þurfum að passa okkur á að nota peningana vel. Við þurfum að horfa á þá hópa sem þurfa aðstoð og einblína á þá".

Efnahagur gæti náð sér á strik mjög fljótt  

Hversu langan tíma tekur það að fá hjólin til að snúast á fullum krafti á ný?

„Þetta er stóra spurningin sem er mjög erfitt að svara.  Þetta er búinn að vera langur tími þar sem við höfum verið í lágmarks afköstum. Þetta fer eftir því hvernig við bregðumst við.  Kannski er stór hópur sem er með mikla ferðaþörf. Um leið og búið er að bólusetja þá setjumst við upp í flugvél og förum eitthvert annað og aðrir koma hingað. Þannig að við getum verið mjög fljót að komast í sama gírinn.

En svo getur verið að margir hafi breytt háttum sínum, gerst umhverfisvænni og hyggjast fljúga og ferðast minna. Það er mjög erfitt að segja til um þetta. Hjólin gætu farið snúast mjög fljótt. Við komum okkur ótrúlega fljótt upp úr hruninu 2008-2010 og það var kominn hagvöxtur 2010. Kannski verður allt komið á fullt um mitt ár, en kannski ekki. Þetta hangir allt á því hvernig við bregðumst við". 

Flestir á sama stað og fyrir Covid

Þú minntist á hrunið fyrir rúmum 10 árum. Er eitthvað sambærilegt að gerast núna, eða er ástandið gjörólíkt?

„Þetta er gjörólíkt. Þetta eru allt aðrir hópar sem lenda núna í vanda og afmarkaðir hópar. Þá lentu margir í skuldavanda út af verðbólgunni og öðru. Nú er það ekki að gerast.  Vextir eru að lækka þannig að nú er fólk frekar að skuldsetja sig af ásettu ráði heldur en að skuldirnar séu að vaxa. Aftur á móti eru þarna ákveðnir hópar sem eru illa staddir. Þeir sem eru atvinnulausir og hafa litla von um atvinnu. Þetta eru ófaglærðir að stórum hluta, innflytjendur, konur - afmarkaðir hópar. Flest okkar eru á sama stað efnahagslega, jafnvel betur sett af því að við erum t.d. ekki að fara í frí. Þetta er allt annars eðlis en eftir hrunið" segir Katrín Ólafsdóttir hagfræðingur og lektor við Háskólann í Reykjavík.

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV