Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

2949 eldri borgarar bólusettir í fyrstu atrennu

Mynd: Kristín Sigurðardóttir / RÚV
Öllum íbúum hjúkurnar- og dvalarheimila og þeim sem dvelja á öldrunarlækningadeildum sjúkrahúsanna á landinu, alls rétt tæplega þrjú þúsund manns, verður boðin bólusetning og er viðbúið að hún verði langt komin á morgun og jafnvel lokið. Þeir sem búa í þjónustuíbúðum fyrir aldraða verða þó að bíða. Starfsfólk á heimilunum verður einnig að bíða og því verður áfram að viðhafa strangar sóttvarnir.

Klukkan tíu í morgun var fyrsta manneskjan sem ekki er heilbrigðisstarfsmaður bólusett. Það var Þorleifur Hauksson, íbúi á hjúkrunarheimilinu Seljahlíð í Reykjavík.

„Þetta var stór stund fannst mér. Mjög stór stund og sérstakt,“ segir Brigitte Einarsson, hjúkrunarfræðingur á hjúkrunarheimilinu Seljahlíð, sem sprautaði Þorleif. En hvernig var stungan?

„Þetta var bara eins og að fá inflúensusprautu,“ segir Þorleifur.

Hann fær svo seinni bólusetninguna eftir þrjár vikur og þá breytast hlutirnir. 

„Það er miklu frjálslegra sko,“ segir Þorleifur. Fram til þessa hafa bræður hans þurft að heimsækja hann sinn hvorn daginn en eftir þrjár vikur má Þorleifur fá fleiri í heimsókn.

Hann furðar sig á þeim sem eru mótfallnir bólusetningum.

„Það finnst mér helvítis vitleysa,“ segir Þorleifur.

Þannig að þú ert bara ánægður með þetta?

„Já, þetta er bara eins og ég hafi fengið stærstu jólagjöfina,“ segir Þorleifur.

Þú ætlar ekki að bjóða í brjálað partí eftir mánðu þegar þú ert búinn að fá seinni stungu?

„Nei,“ svarar Þorleifur.

Allir tuttugu íbúar á hjúkrunarheimilinu voru bólusettir í dag.

„Þetta kom hérna rétt fyrir níu en við verðum fljót að þessu. Þetta var blandað hálf níu en við verðum auðvitað fljót að þessu. Við ætlum að fara núna upp á aðra hæð og byrja þar og fólkið kemur þar í setustofuna og við bólusetjum þar,“ segir Hulda Sveinbjörg Gunnarsdóttir, hjúkrunarstjóri í Seljahlíð.

Öllum íbúum hjúkurnar- og dvalarheimila og þeim sem dvelja á öldrunarlækningadeildum sjúkrahúsanna á landinu, alls rétt tæplega þrjú þúsund manns, verður boðin bólusetning og er viðbúið að hún verði langt komin á morgun og jafnvel lokið.

En auk íbúanna tuttugu á hjúkrunarheimilinu Seljahlíð, búa rúmlega fimmtíu í þjónustuíbúðum. Þeir þurfa að bíða áfram.

„Það breytir kannski ferðafrelsi þessara 20 að geta farið meira af bæ. En við verðum áfram að gæta allra sóttvarna hérna meðan starfsfólkið hefur ekki fengið bólusetningu og ekki hinir íbúarnir fimmtíu,“ segir Margrét Árdís Ósvaldsdóttir, forstöðukona hjúkrunarheimilisins Seljahlíð.