Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Yfir milljón kórónaveirusmit staðfest í Suður Afríku

28.12.2020 - 04:02
epaselect epa08900943 People look into a hall where a feeding scheme is happening after they where not allowed into the venue for social distancing reasons, Johannesburg, South Africa, 23 December 2020. South Africa has had a second wave of the virus spread rapidly around the country over the past month and an increasing number of people are showing symptoms of a new variant of Coronavirus, which holds a higher transmission rate.  EPA-EFE/KIM LUDBROOK
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Suður Afríka varð í gær átjánda ríki heims þar sem yfir ein milljón manna hefur greinst með kórónaveiruna sem veldur COVID-19. Heilbrigðisráðuneyti landsins greindi frá þessu í gær. Aðeins eru nokkrir dagar síðan staðfest var að nýtt afbrigði veirunnar hefði greinst í fólki þar í landi, sem virðist smitast hraðar á milli manna en fyrri afbrigði. Þetta er þó ekki sama afbrigði og greinst hefur í Bretlandi sem hefur þessa sömu eiginleika og farið er að berast út um heim.

Suður-Afríka er það Afríkuríki sem verst hefur farið út úr heimsfaraldrinum og milljón smita markinu var náð níu dögum eftir að tilkynnt var um smit númer 900.000. Fjölgun úr 800.000 upp í 900.000 tók hins vegar tvær vikur.

Mjög er farið að reyna á þanþol heilbrigðiskerfisins í landinu. Allnokkur sjúkrahús eru orðin yfirfull og það á við um gjörgæsludeildir enn fleiri sjúkrahúsa. Þá hefur fjöldi heilbrigðisstarfsfólks verið kallaður inn úr leyfi til að mæta álaginu.

Staðfest tilfelli í Suður Afríku voru orðin 1.004.413 í gærkvöld, samkvæmt heilbrigðisráðuneytinu, og dauðsföll af völdum sjúkdómsins 26.735.