Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þingflokkur VG fundar vegna máls Bjarna Benediktssonar

28.12.2020 - 13:44
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs mun funda í dag vegna máls Bjarna Benediktssonar sem tók þátt í viðburði í Ásmundarsal á Þorláksmessu þar sem sóttvarnareglur eru sagðar hafa verið brotnar. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður þingflokks VG, segir að þingmenn flokksins séu vonsviknir vegna þessa máls.

Bjarkey mun, ásamt formönnum annarra þingflokka, funda með Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis í dag þar sem þetta mál verður rætt og sú ósk formanna stjórnarandstöðuflokka um að þing komi saman nú á milli jóla og nýárs vegna máls Bjarna.

„Við í þingflokknum munum ræða þetta í dag, en í hvaða formi það verður er óljóst; hvort það verður á formlegan eða óformlegan hátt,“ segir Bjarkey. Hún segir að hún hafi orðið vör við talsverða óánægju meðal þingmanna VG og almennra félaga í flokknum með þátttöku Bjarna í þessum viðburði. „En þau samtöl sem ég hef átt við fólk gefa ekki til kynna að það sé almennur vilji til að slíta stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn.“

Bjarkey segist ekki sjá ástæðu til þess að Alþingi komi saman vegna þessa. „Það er hvorki stemning fyrir því, né ástæða,“ segir hún.