Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Sóttvarnalæknir býður í bólusetningu með SMS

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Þeir tæplega 800 starfsmenn Landspítala, sem eru í fyrsta forgangi í bólusetningu gegn kórónuveirunni sem hefst á morgun, hafa fengið sms frá sóttvarnalækni. Skilaboðunum fylgir strikamerki sem þarf að sýna til að fá bólusetninguna. Í skilaboðunum virðist fólk vera boðað á rangan stað, en áður hefur komið fram að bólusetningin eigi að fara fram í Skaftahlíð 24 sem er skristofuhúsnæði Landspítala en í skilaboðunum er fólk aftur á móti boðað að Suðurgötu 24.

Samkvæmt reglugerð um forgangsröðun við bólusetninguna verður starfsfólki bráðamóttöku í Fossvogi, bráðamóttöku barna, gjörgæsludeilda og COVID-19 göngudeildar boðin bólusetning í þessari fyrstu umferð. Einnig verður starfsfólki sem tók aukavaktir á þessum deildum í þriðju bylgju COVID-19 boðið bólusetning, samkvæmt vef Landspítala.

Í þessari fyrstu umferð eru um 770 manns og gert er ráð fyrir að þessari bólusetningu ljúki á miðvikudaginn, 30. desember. Í skilaboðunum segir að bólusetningin taki 20-30 mínútur og að ferðir séu til og frá Landspítala þangað sem bólusetningin fer fram.