Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segjast ekki hafa brotið reglur um fjölda gesta

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Eigendur Ásmundarsalar hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir vísa því á bug að reglur um fjöldatakmarkanir eða opnunartíma sölusýnngar á Þorláksmessu hafi verið brotnar. Grímunotkun hafi hins vegar verið ábótavant og því ljóst að mistök hafi verið gerð til að tryggja sóttvarnir.

Í yfirlýsingu sem eigendur Ásmundarsalar sendu frá sér á aðfangadag kom fram að þeir hefðu ekki haft stjórn á fjöldanum sem kom inn þegar klukkan var farin að ganga 22:30 á Þorláksmessukvöld. „Við misstum yfirsýn og biðjumst afsökunar á því.“

Í yfirlýsingu sinni í dag þvertaka þeir hins vegar fyrir að hafa brotið reglur um fjöldatakmarkanir eða opnunartíma. Leyfi hafi verið fyrir fimmtíu manns í húsinu og ótvírætt sé að fjöldi gesta þetta kvöld hafi verið undir því viðmiði.

„Alls komu um 45 manns inn í húsið síðasta klukkutímann fyrir lokun kl. 23:00 og stoppuðu sumir stutt við, eins og tíðkast á Þorláksmessu. Heildarfjöldinn fór aldrei yfir 50 og var því innan þeirra marka sem reglur mæla fyrir um. Kemur það heim og saman við talningu lögreglu. Þegar lögreglu bar að garði var starfsfólk að loka sýningunni og undirbúa að tæma húsið.“

Aftur á móti hafi grímunotkun verið ábótavant þegar leið að lokun, of margir hafi verið saman komnir til að tryggja fjarlægðarmörk og því ljóst að mistök hafi verið gerð í að fylgja eftir sóttvörnum. „Eigendur Ásmundarsalar harma það og þykir miður að hafa slakað á öryggiskröfum.“ Þá er því vísað á bug að í salnum hafi verið einkasamkvæmi.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, var meðal gesta í Ásmundarasal þetta kvöld og var á staðnum þegar lögreglan kom á vettvang. Hann hefur beðist afsökunar á því gáleysi sem hann sýndi og á því að hafa ekki gætt betur að sér. Hann sagðist í fréttum RÚV um helgina ekki vera að íhuga afsögn.

Í tilkynningu lögreglu á aðfangadagsmorgun kom fram að á fimmta tug hefðu verið í sal sem hafði verið leigður út en ætti að vera lokaður. Töluverð ölvun hefði verið í þessu samkvæmi og enginn með andlitsgrímur. Fjarðlægðartakmörk hefðu ekki verið virt og aðeins þrír sprittbrúsar sjáanlegir. „„Lögreglumenn ræddu við ábyrgðarmenn skemmtunarinnar og þeim kynnt að skýrsla yrði rituð. Þá var gestum vísað út.“