Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ótækt að Alþingi sé ekki opið þegar mikið liggur við

28.12.2020 - 14:12
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Það er ótækt að Alþingi, umræðuvettvangur þingmanna, standi þeim ekki opið þegar mikið liggur við. Þetta segir Oddný G. Harðardóttir formaður þingflokks Samfylkingarinnar sem hyggst ítreka beiðni sína um að þing komi saman vegna máls Bjarna Benediktssonar.

Samfylkingin óskaði eftir því í gær að Alþingi komi saman núna á milli jóla og nýárs vegna þátttöku Bjarna Benediktssonar efnahags- og fjármálaráðherra í viðburði á Þorláksmessu þar sem talið er að sóttvarnareglur hafi verið brotnar.  

Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis hefur boðað Oddnýju og aðra formenn þingflokka á fund klukkan rúmlega 15 í dag þar sem ræða á mál Bjarna og óskir stjórnarandstöðunnar um að þing komi saman vegna þess. Oddný segir að þar muni hún ítreka beiðni sína um að þing komi saman. „Ég mun fara fram á umræður um afleiðingar þessa slæma fordæmis,“ segir hún.

Oddný segist ekki bjartsýn á að beiðnin nái fram að ganga. „Ég er ekki vongóð. En auðvitað vonast ég til þess; það þarf bara tvo stjórnarþingmenn til að krefjast þess til viðbótar við okkur í stjórnarandstöðunni,“ segir Oddný.

Hún segir að það sé ótækt þegar atvik á borð við þetta eigi sér stað að þingmenn geti ekki komið saman og rætt það.  Það ætti að vera sjálfsagt að þing komi saman við slíkar aðstæður. „Það er ótækt að umræðuvettvangurinn, sem er Alþingi, standi þingmönnum ekki opinn þegar alvörumál sem þetta þarf að ræða. Því það er alvörumál þegar ráðherra fer ekki eftir sóttvarnareglum. Og viðbrögð forsætisráðherra og samgöngu- og  sveitarstjórnarráðherra við þessu eru ekki síður alvarleg.“