Þetta er í fyrsta sinn sem Osaka, sem er 23 ára, er valin íþróttakona ársins af AP. Hún er í efsta sæti heimslistans í tennis en hún vann einliðaleik á Opna bandaríska meistaramótinu í tennis á árinu og þar með sitt þriðja risamót í tennis. Osaka er fædd í Bandaríkjunum en á japanska móður og leikur því fyrir Japan á Ólympíuleikunum í Tókýó næsta sumar.Þá hefur Osaka nýtt sviðsljósið í baráttunni gegn kynþáttamismunun og vakið athygli á lögregluofbeldi gegn þeldökkum í Bandaríkjunum. Osaka varð í vor hæst launaða íþróttakona heims, þá aðeins 22 ára, en þá hafði hún unnið tvö risamót í tennis á 12 mánaða tímabili og fékk fyrir það rúmlega 30 milljónir punda í verðlaunafé - sem samsvarar um fimm milljörðum íslenskra króna.
Körfuboltamaðurinn LeBron James, sem er 35 ára, varð fyrir valinu hjá AP í fjórða sinn en hann var lykilmaður LA Lakers sem unnu NBA-deildina í haust. Úrslitakeppnin var leikin í Disney-landi eftir langt hlé vegna COVID-19. Þetta var í fjórða skipti sem James vinnur NBA-titilinn og einnig í fjórða sinn sem hann er valinn besti leikmaðurinn, MVP, í úrslitakeppninni. Þá hefur LeBron hefur einnig nýtt frægð sína til að berjast fyrir málefnum þeldökkra í Bandaríkjunum. Frank Vogel, þjálfari Lakers, kallaði James besta körfuboltamann sögunnar í október eftir að liðið vann í úrslitum.