Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Fyrst kom bóluefnið frá Pfizer en hvað kemur svo?

epa08901695 Health personnel prepare the doses of Moderna during a vaccination day against covid-19 at the Pedrin Zorrilla Coliseum in San Juan, Puerto Rico, 23 December 2020. After being one of the few countries to start vaccination against covid-19 with Pfizer eight days ago, today Puerto Rico follows the same path but with Moderna and for health workers who do not work in hospitals, in what will be the first regional vaccination center, located in a coliseum in San Juan.  EPA-EFE/Thais Llorca
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Koma bóluefnis Pfizer og BioNTech til landsins í dag markar þáttaskil í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn. Bólusetning hefst líklega strax á morgun og er heilbrigðisstarfsfólk í framlínunni og íbúar á hjúkrunar-og öldrunarheimilum fremst í röðinni. Skammtarnir frá Pfizer nægja ekki til að bólusetja alla þjóðina og því eru margir farnir að horfa til 6. janúar þegar næsta bóluefni verður tekið fyrir hjá sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu.

Búist er við að tíu þúsund skammtar af bóluefni Pfizer og BioNTech, sem nefnist Comirnaty, komi til landsins í dag.  Íslensk stjórnvöld hafa tryggt sér bóluefni frá lyfjaframleiðandanum fyrir 85 þúsund manns. Reiknað er með að þrjú þúsund skammtar af bóluefninu komi til landsins á viku fram í mars.

Næst í röðinni er bóluefnið frá Moderna. Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu ákvað að flýta fundi sínum frá 12. janúar til 6. janúar til að afgreiða umsókn fyrirtækisins um skilyrt markaðsleyfi. Gangi hlutirnir jafn hratt fyrir sig og þeir gerðu með bóluefni Pfizer gæti það bóluefni komið til Íslands viku seinna eða 13. janúar.

Ferlið er það sama; framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gefur út markaðsleyfið sem byggir á meðmælum sérfræðinganefndarinnar og Lyfjastofnunin hér á landi gefur í framhaldinu út markaðsleyfi fyrir Ísland. 

Íslensk stjórnvöld hafa ekki skrifað undir samning við Moderna en gera sér vonir um að klára það á gamlársdag. Gangi það eftir er gert ráð fyrir 80 þúsund bóluefnaskömmtum fyrir 40 þúsund Íslendinga. Bæði Bandaríkin og Kanada hafa hafið bólusetningu með bóluefni Moderna. 

Þriðja bóluefnið við sjóndeildarhringinn er frá AstraZeneca og Oxford en miklar vonir eru bundnar við það þar sem það er bæði ódýrara og einfaldara að flytja það. Talið er að það geti fengið skilyrt markaðsleyfi hjá Lyfjastofnun Evrópu í febrúar.  

Bresk blöð greindu frá því í gær að hugsanlegt væri að AstraZeneca-bóluefnið fengið grænt ljós í Bretlandi á næstu dögum og að hægt væri að hefja fjölda-bólusetningar strax í annarri viku næsta mánaðar.

AstraZeneca stefnir á að afhenda fyrstu skammtana á fyrsta ársfjórðungi  nýs árs.  Ísland hefur þegar skrifað undir samning upp á 230 þúsund skammta sem duga fyrir um 115 þúsund Íslendinga.

Fjórða bóluefnið er síðan frá Johnson & Johnson. Það er enn í þriðja fasa prófana en áætlað er að Lyfjastofnun Evrópu gefi út álit í febrúar á næsta ári. Ísland fær bóluefni fyrir 235 þúsund einstaklinga en það verður sennilega ekki fyrr en á þriðja ársfjórðungi.