Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Veðri slotar með kvöldinu en innanlandsflugi aflýst

27.12.2020 - 13:02
Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson / Brynjólfur Þór Guðmundsson
Björgunarsveitir í Vestmannaeyjum og Suðurnesjabæ voru kallaðar út í morgun þegar mikið hvassviðri gekk yfir suðvesturhluta landsins. Vindhraði náði allt að fjörutíu og þremur metrum á sekúndu í verstu hviðum. Þakklæðningar losnuðu og lausamunir tókust á loft. Þá var öllu innanlandsflugi Air Iceland Connect aflýst í dag en Norlandair flaug milli Bíldudals og Reykjavíkur.

Bátar og þakkassar losnuðu

Arnór Arnórsson, formaður Björgunarfélags Vestmannaeyja, var við björgunarstörf þar í morgun. 

„Þetta var svo sem aðallega þessir bátar sem voru frekar tæpir að losna frá bryggju, einn og einn spotti eftir í þeim, svo vorum við með  þakpappa sem voru farnir að losna upp.“ Tjón var lítið en mátti ekki miklu muna að verr færi.

„Nú er dottið niður í blíðu,  sex metra á sekúndu og bara rólegt,“ segir Arnór.

Hvassast á vestanverðu landinu

Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, sagði hvassast á vestanverðu landinu í nótt og morgun.

„Það verður ekki jafn hvasst núna síðdegis og var í morgun,“ segir hann.

„Þetta var einna verst víða á vestanverðu landinu, en síðan þegar dregur úr svona seinni partinn verður þetta kannski verst á suðausturlandinu og þá breytist úrkoman í él,“ og segir Birgir að vænta megi hríðar þar um tíma.

Veðrinu slotar smám saman fram á kvöldið. Þangað til er ekki gott ferðaveður en á morgun og í kvöld ætti það að vera ágætt á vesturlandi en fyrir norðan má búast við samgöngutruflunum vegna snjókomu.

Fréttin var leiðrétt 16:22 þar sem því var ranglega haldið fram að öllu innanlandsflugi væri aflýst.