Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Rýming óbreytt á Seyðisfirði, fundað aftur á morgun

27.12.2020 - 16:10
Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Þórisson - RÚV
Rýming á ákveðnum svæðum á Seyðisfirði vegna skriðuhættu er enn í gildi og verður tekin afstaða til hennar aftur á morgun segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi. Viðbragðsaðilar funduðu með Veðurstofu í dag og funda aftur um hádegisbil á morgun.

Vonskuveður var á Seyðisfirði í morgun og var Fjarðarheiði lokuð þar til Vegagerðin opnaði hana aftur síðdegis. Þar er nú hálka og skafrenningur.

„Staðan eftir fundinn í hádeginu er óbreytt í raun,“ segir Kristján. „Á fundi á morgun verðu staðan tekin aftur bæði hvað varðar rýmingu, hreinsunarstörf, verðmætabjörgun og svo framvegis.“

Engar tilkynningar hafa borist um skriður eða drunur á svæðinu frá því í gær.  Mælingar í morgun sýna að lítil sem engin hreyfing hafi orðið á upptakasvæðum skriðufalla frá því í gær.

í tilkynningu almannavarna um stöðuna á Eskifirði og Seyðisfirði segir: 

Eskifjörður:
Engar hreyfingar hafa mælst síðasta sólarhringinn þar sem sprungur opnuðust í veginum upp að Oddskarði.  Áfram verður fylgst með svæðinu.

Seyðisfjörður:

Gengið hefur á mikilli rigningu á Seyðisfirði í dag.  Fólk hvatt til að fylgjast vel með upplýsingum um færð og veður á www.vedur.is og www.vegag.is.

Engar tilkynningar hafa borist um skriður eða drunur á svæðinu frá því í gær.  Mælingar í morgun sýna að lítil sem engin hreyfing hafi orðið á upptakasvæðum skriðufalla frá því í gær. 

Í kvöld mun kólna og rigning á láglendi fer yfir í  snjókomu. Engin hreinsunarvinna mun fara fram á rýmingarsvæðinu í dag vegna veðurs.  Á morgun, mánudag, munu sérfræðingar Veðurstofunnar ásamt samstarfsaðilum meta aðstæður á ný og mæla hvort hreyfing hafi orðið á skriðusvæðinu í umhleypingunum.  Upp frá því verður staða rýminga á Seyðisfiði endurmetin. 

Vel er fylgst með upptakasvæðum skriðufalla, bæði af snjóflóðaeftirlistmönnum á Seyðisfirði og lögreglu.