Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Risahellir í þrívídd: „Í rauninni algjörlega galið“

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Gerð hefur verið þrívíddarútgáfa af einum stærsta helli landsins. Slíkt hefur aldrei áður verið gert með þessum hætti hér á landi og verkefnið er líklega einstakt á heimsvísu, að sögn þeirra sem stýra því. Tilgangurinn er að gera fólki kleift að skoða hella án þess að hætta sé á að þeir skemmist.

Stefánshellir er í Hallmundarhrauni, norðaustur af Húsafelli. Hér áður fyrr var tenging á milli hans og Surtshellis, en hrun hefur orðið til þess að ekki er lengur innangengt á milli þeirra.

Stefánshellir er einn stærsti og jafnframt áhrifamesti hellir landsins, en hann er alls um 1.500 metra langur. Nú er búið að kortleggja hellinn með áður óþekktum hætti.

„Við erum búnir að vera að þrívíddarskanna hellinn í bestu mögulegu gæðum til þess að útbúa líkan sem verður mögulega hægt að nota í sýndarveruleika þannig að fólk geti upplifað hellinn án þess að þurfa að koma,“ segir Jón Bergmann Heimisson, framkvæmdastjóri Punktaskýs ehf.

„Þetta er allt horfið“

Til þess að skanna hellinn var notaður forláta þrívíddar leiserskanni sem kostar á við ágætan jeppa.

„Það sem var merkilegt við Stefánshelli var að þegar Stefán fann hann árið 1917, ungur maður 16 ára gamall, þá var hellirinn sennilega á meðal áhrifamestu og fallegustu hraunhella í allri veröldinni,“ segir Árni B. Stefánsson hellasérfræðingur. „Hann var mjög skreyttur, það var mikið af dropsteinum hér og þar í hvelfingunum, í göngunum og með veggjum. Og mjög mikið af dropstráum í loftinu. En þetta er allt horfið.“

Ástæðan er sú að miklar mannaferðir hafa verið um hellinn allt frá því hann fannst. Árni vill að aðgangi að hellinum verði stýrt, og að fólki verði einnig boðið upp á að sjá hann í sýndarveruleika, til dæmis á náttúrugripasöfnum.

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Hér má sjá lengri útgáfu af viðtalinu við Jón Bergmann Heimisson.

Jón segir að þetta hafi verið mikil vinna, en hann var í hellinum í 15 daga.

„Og ég var neðanjarðar heilu dagana að skanna. En þetta venst ágætlega, að vera í myrkrinu, af því að við erum með aukalýsingu og svo er maður alltaf með félagsskap. Maður fer ekki hingað niður einn.“

Þetta er einn stærsti hellir landsins, er ekki svolítil geggjum að byrja á honum?

„Jú það er í rauninni algjörlega galið að byrja að skanna einhvern stærsta og flóknasta helli á landinu. En þetta er bara eitthvað sem við vildum koma til skila. Ef við getum þetta, þá getum við allt,“ segir Jón og Árni tekur undir það.

„Ef við getum klárað þetta verkefni, þá getum við líka skjalfest viðkvæmustu hellana sem fólk getur ekki heimsótt. Og þá getum við verið með þetta á náttúrugripasafni eða hvar sem er, boðið upp á sýndarveruleikaheimsóknir í hella sem enginn getur notið án þess að skemma þá,“ segir Árni.

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Hér má sjá ítarlegra viðtal við Árna B. Stefánsson.

Jón segir að svona nokkuð hafi aldrei verið gert hér á landi áður, og að verkefnið sé líklega einstætt á heimsvísu.

„Já við lítum algjörlega á það þannig að við séum í frumkvöðlastarfi og við erum að gera þau bestu gögn af helli sem mögulega er hægt að gera. Ég ætla ekki að fullyrða það, en við erum ansi nálægt því.“

Kostnaður við verkið hleypur á milljónum, en það er að mestu fjármagnað með sjálfboðavinnu og frjálsum framlögum. Árni segir að stefnt sé að því að skanna fleiri hella í framtíðinni. 

„Og sérstaklega er ég að hugsa um viðkvæmustu skreyttu hellana sem við eigum, eins og Jörund, Árnahelli, Kalmanshelli og marga fleiri. Að gera af þeim sýndarveruleikalíkön og gera fólki kleift að heimsækja þá þar. Og nú veit ég að við getum gert það,“ segir Árni.