Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Algjör tuska framan í þjóðina“

27.12.2020 - 17:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Inga Sæland formaður Flokks fólksins segir að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi gerst sekur dómgreindarleysi þegar hann fór í samkvæmi þar sem sóttvarnareglur voru brotnar. Hún gefur lítið fyrir afsakanir ráðherra og krefst þess að hann segi af sér.

Bjarni var gestur í samkvæmi í Ásmundarsal á Þorláksmessu þar sem sóttvarnareglur voru brotnar. Hann hefur þegar beðist afsökunar á málinu og sagt að það hafi verið gáleysi af hans hálfu að veita því ekki athygli að reglum væri ekki fylgt.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa gagnrýnt ráðherra harðlega. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata segir að afsökunarbeiðni Bjarna sé ótrúverðug. Undir þetta tekur Inga Sæland formaður Flokks fólksins.

„Og ætla halda því fram að hann hafi verið þarna í kortér og kunni ekki að telja. Salurinn hafi bara fyllst á þessum fimmtán mínútum. Þetta er dómgreindarleysi, algjör tuska framan í þjóðina. Þetta er með því ljótara sem maður hefur séð í miðjum heimsfaraldri. Þar sem ástvinir okkar deyja einir á spítölum því við getum ekki fengið að heimsækja þá. Þar sem ömmurnar okkar og afarnir þekkja ekki barnabörnin sín sem fæddust árið 2020,“ segir Inga.

Hún telur eðlilegt að Alþingi komi saman til að fjalla um þetta mál sérstaklega. Hún krefst þess að Bjarni segi af sér og segist styðja vantrauststillögu verði slík tillaga lögð fram.

„Ég er í rauninni enn þá alveg bit að maðurinn skuli ekki sýna okkur þá virðingu og sjálfum sér í leiðinni að stíga til hliðar, því það er það sem hann á að gera,“ segir Inga.