Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Óvenjuleg rigningarflóð í Hvítá í rénun

26.12.2020 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Flóðið í Hvítá í Borgarfirði rénar hratt og rennsli árinnar að komast í samt horf.  Flóðin eru óvenjuleg, að sögn bóndans á Hvítárbakka, vegna þess að þau eru rigningarflóð. Ekki varð tjón á húsum, svo vitað sé, en vegurinn að Hvítárbakka er skemmdur.

Vatnamælar veðurstofunnar við Kljáfoss í Hvítá við Hurðarbak eru farnir að sýna eðlilegt rennsli í ánni, rétt undir 100 rúmmetra á sekúndu. Mest varð rennslið þar nærri fjórfalt á jóladagsmorgun.

Mælirinn við Fejubakka, neðar í ánni, sýnir að enn er vatnshæðin töluverð þó hún sé nærri helmingurinn af því sem hún var undir kvöld í gær. Það getur þó tekið einn til þrjá sólarhringa fyrir rennslið að verða venjulegt.

Mælarnir við Kljáfoss sýna glögglega að þegar jólin slógu inn á aðfangadagskvöld fór vatnshæð og rennsli árinnar að hækka. Það óx jafnt og þétt alla jólanótt. Rennslið náði svo hámarki um klukkan átta á jóladagsmorgun ofar í ánni.

Áin flæddi yfir vegi og yfir tún og vatnið náði upp að hesthúsunum við Ferjukot. Þar býr Heiða Dís Fjeldsted, reiðkennari og hún segir að enn sjáist að það hafi verið flóð.

„Það er allt annað en í gær. Vatnið hefur nánast farið í sinn venjulega farveg,“ segir Heiða Dís. „En maður sér ennþá að það hafi verið flóð.“

Óvenjuleg rigningarflóð

Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur á vakt Veðurstofunnar, segir í samtali við fréttastofu að svona flóð verði þegar frosinn jarðvegurinn tekur ekki við regnvatninu sem fellur. Regnvatnið leitar þá að stystu leið til sjávar. Víðar hafi komið toppar í rennsli stórra áa, sérstaklega á Vesturlandi.

„Þetta var býsna hátt. Þetta er meiri flóðum og með allra mestu í rigningu sem menn kunna. Því það var ekki mikil snjór til fjalla og ekki miklar leysingar,“ segir Jón Friðrik Jónsson, bóndi á Hvítárbakka, sem hefur búið við ána alla tíð. Hann segir að flóðin séu óvenjuleg.

Spurður hvort hann viti til þess að svona rigningarflóð hafi orðið segir Jón Friðrik: „Nei, ekki svona. Ég hef aldrei séð það og aldrei heyrt talað um það heldur. Svo úrkoman hefur verið heldur mikil undir jöklinum eða einhvers staðar þarna framfrá.“

„Það er algengt að það flæði og allir sem búa á bökkum Hvítár vita það að flóð geta verið mörgum sinnum á ári,“ segir Jón Friðrik.