Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mistök að hafa Þórólf ekki með í viðræðum við Pfizer

26.12.2020 - 14:34
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagðist hafa gert mistök þegar hann hafði Þórólf Guðnason sóttvarnalækni, ekki með í viðræðum við lyfjarisann Pfizer, um að útvega Íslendingum bóluefnið þeirra gegn COVID-19, Comirnaty. Þórólfur hafði samband við Pfizer sjálfur 15. desember. Þá hefur Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, einnig fundað með fulltrúa Pfizer um að útvega Íslendingum bóluefni.

„Hann er leiðtogi okkar í baráttunni og ég og mitt fólk fáum af og til að leggja að mörkum þegar það á við. Það voru mistök af minni hálfu að hafa Þórólf ekki með mér þegar ég hafði samband við Pfizer,“ sagði Kári í Facebook færslu í dag.

Hann segir sig og sóttvarnalækni ekki í neinu stríði. Næsta fund með Pfizer muni þeir báðir sitja og gangi hann vel, eins og Kári kemst að orði, mun Kári draga sig í hlé í viðræðum við Pfizer.

Þórólfur sagði í dag að viðræðurnar snúist um það að tryggja bóluefni frá Pfizer til þess að bólusetja alla þjóðina en ekki væri frá neinu að segja um viðræður að svo stöddu. Þráðurinn yrði tekinn aftur upp eftir áramót.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - Innlent

 

„Til áréttingar: Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir og ég , Kári Stefánsson , erum ekki í neinu stríði. Við vinnum eins náið saman og verkefnin kalla á. Hann er leiðtogi okkar í baráttunni og ég og mitt fólk fáum af og til að leggja að mörkum þegar það á við. Það voru mistök af minni hálfu að hafa Þórólf ekki með mér þegar ég hafði samband við Pfizer en hef mér það til varnar að því sambandi var komið á í gegnum samstarfsmenn mína í Bandaríkjunum og ég hafði litla stjórn á ferðinni.

Góðu fréttirnar eru þær að næsta fund með Pfizer tökum við Þórólfur saman og ef hann gengur vel dreg ég mig í hlé og skil þetta alfarið í höndunum á honum enda hæfir það hans hlutverki í íslensku heilbrigðiskerfi. Þórólfur hefur stýrt okkur ótrúlega vel og ljúfmannlega í gegnum tíu mánaða faraldur og er manna best til þess fallinn að beita bólusetningum til þess að koma okkur endanlega út úr honum.“