Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Komið að ögurstundu“ í viðræðum um kvikmyndanám

26.12.2020 - 19:49
Mynd: Donald Tong / Pexels
Enn liggur ekki fyrir hvar kvikmyndanám á háskólastigi verður kennt, en námið á að hefjast næsta haust. Á sjötta tug kvikmyndagerðarmanna hafa skorað á menntamálaráðherra að fela Listaháskólanum að sjá um námið en rektor Kvikmyndaskólans segir sinn skóla betur til þess fallinn.

Í kvikmyndastefnu stjórnvalda, sem menntamálaráðherra kynnti í byrjun október, er gert ráð fyrir því að kvikmyndanám á háskólastigi hefjist næsta haust. Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, segir farið að liggja á ákvörðun um fyrirkomulagið. „Við erum í mjög góðu samstarfi við helstu samstarfsaðila og ég hlakka til þess að þetta gangi allt eftir. Ég vil líka taka það fram að þetta tekur allt sinn tíma,“ segir hún.

Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands, segir allt tilbúið af hálfu skólans til að hefja kennslu í greininni næsta haust, meðal annars aðgerða- og fjárhagsáætlun. „Við teljum okkur hafa allan infrastrúktúr sem þarf, sem fylgir háskólakerfinu í heild sinni, og við erum með allan gæðastrúktúr sem þarf til að reka þetta nám,“ segir Fríða.

„Okkur skortir náttúrulega fjármagnið og skýr svör frá yfirvöldum um hvort þau ætli sér í þessa framkvæmd eða ekki,“ bætir hún við.

Friðrik Þór Friðriksson, rektor Kvikmyndaskóla Íslands býst hins vegar við að greinin verði kennd þar, og bendir á tækjakost skólans máli sínu til stuðnings. Þá var skólinn að koma sér fyrir í nýju húsnæði við Suðurlandsbraut og er með leigusamning til tuttugu ára.

„Við erum bara með allt í startholunum að hefja háskólanám hér í kvikmyndagerð í samvinnu við Háskóla Íslands. Háskóli Íslands bíður bara á hliðarlínunni eftir að við fáum viðurkenningu sem háskóli,“ segir Friðrik.

Samkvæmt heimildum fréttastofu verður ákvörðun um tilhögun námsins tekin á næstu dögum eða vikum, en meðal annars kemur til greina að setja námið í útboð. Vilji kvikmyndagerðarmanna virðist þó vera nokkuð skýr. Á sjötta tug þeirra hafa skorað á ráðherra að fela LHÍ að sjá um námið.

„Mér kemur ekkert við hvað LHÍ er að gera. Það þarf að búa það allt til frá grunni og ef það á að gera það vel þá kostar það bara hundruði milljóna. Ég veit ekkert hvort þeir peningar séu endilega til núna á þessum tímum,“ segir Friðrik.

Fríða segir Listaháskólann hins vegar hafa alla burði til að sjá um námið. Aðspurð hvort Kvikmyndaskólinn sé betur í stakk búinn vegna tækjakosts segir hún: „Kvikmyndaskólinn er ekki háskóli. Hann er ekki með viðurkenningu á háskólastigi og hefur ekki viðurkenningu á fræðasviði lista til að kenna á háskólastigi. Þannig mér finnst þetta ekki raunhæf hugmynd.“

Kvikmyndaskólinn sótti um að fá háskólaviðurkenningu hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu í sumar. Óljóst er hversu langan tíma málsmeðferðin tekur og hvort skólinn fái yfirhöfuð viðurkenninguna en gæðaráð háskólanna kemur saman vegna málsins í næsta mánuði. 

Fríða segir að ákvörðun um tilhögun námsins þurfi að liggja fyrir í síðasta lagi í byrjun næsta mánaðar. „Þetta er alveg á síðasta snúningi. Það er komið að ögurstundu,“ segir Fríða.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV