Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Jólakort frá Íslendingum víða um heim

26.12.2020 - 08:00
Erlent · Innlent · COVID-19 · Jólin
Mynd: Sigurður Kristján Þórisson / RÚV
Víða um heim býr fólk við takmarkað frelsi um hátíðirnar en sumir búa á stöðum þar sem veiran hefur vart látið sjá sig. Fréttastofa fékk send jólakort frá nokkrum Íslendingum úti í heim.

„Þetta verður bara agalega huggulegt hjá okkur,“ segir Erla Gerður Viðarsdóttir sem býr í Rotterdam í Hollandi ásamt eiginmanni sínum Einari Markúsi Einarssyni og dætrum þeirra Steinunni Heklu og Bjartey Lilju. Í Hollandi eru strangar reglur í gildi en fjölskyldan ákvað að eyða jólunum þar í góðra og fárra vina hópi. „Á aðfangadag verðum við með möndlugrautinn og ætlum að bjóða enskum vinum okkar, við ætlum að kynna þau fyrir þeirri hefð og á annan í jólum er okkur svo boðið í jólaboð hjá íslenskri fjölskyldu hérna,“ segir Erla Gerður.

„En þið vitið, COVID“

„Ég ætlaði náttúrulega að fara heim um þessi jól en þið vitið, COVID. Fyrir utan að það sé tuttugu og eitthvað stiga hiti þá eru þetta bara hefðbundin jól hjá mér,“ segir Indriði Grétarsson í Dúbaí.  

Þórhildur Ingadóttir sem býr í Townsville í Queensland í Ástralíu segir íbúa þar afar heppna. „Hér hafa aðeins um þrjátíu manns smitast frá byrjun og því getum við haldið okkar hefðbundnu jól. Við fjölskyldan munum opna gjafir á jóladagsmorgun, borða góðan mat og förum svo kannski á ströndina seinni partinn ef veður leyfir. Jólin eru ekki eins hátíðleg hjá okkur fjarri fjölskyldu og hefðum en þau koma samt alltaf og eru alltaf góðar stundir hjá okkur. Þetta eru skrýtin jól fyrir mjög marga og ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og við vonum að næsta ár verði betra.“

Jólakort frá Íslendingum má sjá í spilaranum hér að ofan.