Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Bjóða landsmönnum á gamlárstónleika sem hliðarsjálf

26.12.2020 - 17:29
Mynd með færslu
 Mynd: OZ/Gunnar Karlsson - Samsett mynd
Tónlistarmennirnir Sigur Rós, Kaleo, Stuðmenn, Grýlurnar, Auður, Bríet og Friðrik Dór munu öll stíga á svið á gamlárskvöld á áramótafögnuði sem fer fram í þrívíðum ævintýraheimi á RÚV að loknu áramótaskaupi. Um er að ræða fyrsta gagnvirka sjónvarpsviðburð sinnar tegundar hér á landi og þótt víðar væri leitað samkvæmt framleiðendum viðburðarins.

„Nokkrum listamönnum hefur boðist að hafa hamskipti úr sínu reglubundna holdi og blóði yfir í aðra vídd,“ segir Jakob Frímann Magnússon, tónlistarmaður og einn af aðstandendum verkefnisins. „Hreyfingar orð og hljóð eru þau sömu en útlitið er annað. Í þeirri vídd er þjóðinni boðið til áramótafagnaðar í sínu rafræna hliðarsjálfi,“ segir Jakob.

Hægt er að skrá sig til þátttöku á þennan nýstárlega tónlistarviðburð með Snapchat aðgangi á vefsíðunni áramót.is

Mynd með færslu
 Mynd:
Bríet er meðal þeirra sem koma fram

„Þetta er allt mögulegt fyrir tilstuðlan galdrakallsins í Oz,“ segir Jakob og á við Guðjón Guðjónsson, framkvæmdastjóra Oz. Notast verður við nýja tækni sem fyrirtækið hefur verið að þróa sem tengist nýjung hjá Snapchat en rafrænu hliðarsjálfin eru útveguð af samfélagsmiðlinum.

Fjöldi þátttakenda hafa  þegar skráð sig. „Það er ánægju efni að þetta verður fjölsótt samkoma fólki að kostnaðarlausu, segir Jakob sem segir viðburðinn tilkominn úr þeim skringilega samtímaveruleika sem við höfum orðið vitni að undanfarið ár. „En þá segjum við, við skulum gera eitthvað skemmtilegt sem hvorki fer á svig við samkomtakmarkanir né önnur viðmið í sóttvörnun!“

Rafræn flugeldakaup til styrktar björgunarsveitunum

Einnig er hægt að kaupa rafræna flugelda á áramót.is og mun ágóðinn renna óskiptur til björgunarsveitarinnar Ísólfs á Seyðisfirði.

„Við gerum þetta í nafni listamannanna og þeirra sem að verkefninu koma.“

Tækni- og tölvuleikjafyrirtækið fyrirtækið Directive Games, Rough Cult og PuppIT  taka einnig þátt í viðburðinum sem og myndlistarmaðurinn Gunnar Karlsson, Benedikt Erlingsson leikstjóri og Pétur Eggerz Pétursson, listrænn stjórnandi. „Ásamt tugum annarra sem hafa lagt djörfa hönd á plóg til gera að gera þetta mögulegt,“  segir Jakob. 

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV