Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Áhrifaríkast að minnka vatnsmettunina fyrir ofan bæinn

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Áhrifaríkasta lausnin til að verja byggðina á Seyðisfirði fyrir aurskriðum er að minnka vatnið sem sest í jarðveginn fyrir ofan bæinn, segir verkfræðingur. Erfitt verður að verjast eins stórri skriðu og féll 18. desember.

Rýming á Seyðisfirði er enn í gildi vegna hættu á skriðuföllum úr Botnabrún ofan við syðri hluta bæjarins. Ástandið verður aftur metið á mánudaginn.

Fjöldi skriða féll úr Botnabrún í síðustu viku, þar á meðal ein stór skriða á föstudag. Talið er að ekki hafi fallið svo stór skriða á Seyðisfirði í þúsund ár.

20-70 metrar af jarðvegi ofan við bæinn

Síðustu misseri hefur skriðuhættan og hugsanlegar lausnir verið metnar. „Vandamálið þarna í Botnum og raun og veru líka uppi á Þófunum er að þarna er alveg gríðarlega þykkur massi af setlögum uppi á hjallanum sem blasir við fyrir ofan bæinn,“ segir Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá verkfræðistofunni Eflu.

Massinn sem Jón Haukur bendir á er á bilinu 20-70 metra þykkur fyrir ofan bæinn. „Allur þessi massi, öll Botnabrúnin er að mjaka sér og silast hægt og rólega í átt að bænum,“ segir hann. „Og fyrir vikið verður brúnin alltaf aðeins brattari og þá eykst hættan á þessum grunnu yfirborðsskriðum sem við sáum að hluta til í síðustu viku.“

Stigvaxandi atburðarás

Skriðuhættan helst í hendur við mikla úrkomu, sérstaklega þegar hún er eins viðvarandi og hún var áður en skriðurnar féllu á Seyðisfjörð. Atburðarásin fór stigvaxandi, hófst með smærri yfirborðsskriðum þegar jarðvegur brotnaði úr bökkum lækja og úr lindum fram af Botnabrún.

„Og svo endar þetta svo í þessum stóra atburði, þegar stærsti hlutinn af þessari skál hérna, milli Búðarár og Stöðvarlækjar brotnar niður og kemur yfir allt þetta svæði hér,“ segir Jón Haukur og bendir á fylluna sem ruddi sér fram föstudaginn 18. desember og sópaði með sér húsum og öllu því sem fyrir varð.

Þessar aðstæður skriðuhættu þar sem mikill jarðvegsmassi situr fyrir ofan bæjarstæði eru einstakar á Íslandi, segir Jón Haukur. „Það er frekar óvanalegt að byggðin sé sett undir svoleiðis hættu.“

Hvernig er hægt að verja byggðina?

Ráðherrar fóru til Seyðisfjarðar fyrir jól til þess að berja hamfarirnar augum. Þau lofuðu skjótum aðgerðum. Ein af áhrifaríkustu lausnunum til að verja byggðina fyrir aurflóðum er einfaldlega að minnka vatnið sem kemst í jarðveginn.

Til þess hafa verið settir upp mælar sem mæla vatnsþrýsting efst í Neðri-Botum. Þar rennur vatn ofan af fjallinu og mettar jarðveginn fyrir neðan. Í fyrsta lagi þarf koma í veg fyrir að allt vatnið komist í jarðveginn.

„Í öðru lagi þá eru það einhvers konar drenborholur sem færu inn úr brúnunum,“ segir Jón Haukur. Þessar borholur myndu sækja vatnið í jarðveginn og veita því undan kerfinu. „Og svo eru það kerfi sem þurfa að vera hérna niðri, eins og þrær sem voru komin drög að í kringum Búðarána og svo skurðakerfi sem taka svona þessa tíðari atburði.“

Mjög erfitt að verjast stóru skriðunum

Það er annað mál og flóknara að verja byggðina á Seyðisfirði fyrir stærstu skriðunum, eins og þeirri sem féll föstudaginn 18. desember. Engin hefðbundin varnarmannvirki forðað byggðinni frá svo stórri skriðu. „Það verður bara mjög erfitt, það er bara þannig,“ segir Jón Haukur.

Næsta verkefnið, að sögn Jóns Hauks, er að klára skipulagsvinnu, umhverfismat og önnur formleg atriði áður en hægt er að byggja mannvirkin. Formlega ferlið geti tekið marga mánuði ef stjórnvöld vilja ekki flýta því.