Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir prestinn bera ábyrgð á söfnuðinum

25.12.2020 - 18:26
Jakob Rolland
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon
Lögreglan hafði afskipti af helgihaldi í Landkotskirkju í gærkvöld vegna of mikils fjölda sem sem var þar við messu. Jakob Rolland, kanslari biskupsdæmis kaþólsku kirkjunnar kvartar undan ósamræmi í sóttvarnareglum.

Hátt á annað hundrað gestir voru samankomnir í pólskri messu í Landakotskirkju í gær. Fáir voru með grímur og aðeins einn sprittbrúsi var sjáanlegur í kirkjunni, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni. Þá var ekki hægt að tryggja tveggja metra fjarlægð milli fólks. Lögreglu bar að garði við lok messunnar, þá var stór hluti farinn en um fimmtíu gestir voru enn inni. 

„Það er hugsanlegt að Pólverjarnir hafi ekki áttað sig á nægilega vel á reglunum eins og þær eru núna. Presturinn á að vita, hann fær upplýsingar líka frá okkur, hvernig stendur á faraldrinum en það er spurning hvort hann hafi komið þessum skilaboðum nægilega vel til skila til safnaðarins. Það var farið ansi langt og ekki samkvæmt reglum sem gilda.“

Það sé á ábyrgð prestins, ekki kirkjunnar, að sjá til þess að farið sé eftir sóttvarnareglum. Jakob segir að málið verði skoðað nánar innan kirkjunnar, rætt verði við prestinn og hvernig bregðast eigi við - hann furðar sig þó á ósamræmi í sóttarnareglum, strangar takmarkanir séu á helgihaldi en fjöldi fólks megi til að mynda koma saman í verslunum. 

„Það virðist vera þannig að það séu ekki sömu reglur sem gilda til dæmis í búðum og í kirkjunni. Auðvitað setur maður mikið spurningamerki við það. Ég held að það þurfi að athuga þetta svolítið nánar og hérna í stórri kirkju eins og þessari mætti hafa relgurnar aðeins öðruvísi en það sem gerist í litlum rýmum.“

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV