Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Trump náðar Manafort, Stone og tengdaföður Ivönku

epa08901975 (FILE) - Roger Stone, former advisor to US President Trump arrives for closing arguments in his trial at the Federal District Court in Washington, DC, USA, 13 November 2019 (reissued 24 December 2020). According to media reports, US President Donald J. Trump issued a pardon to Roger Stone, who was convicted on several felony counts in the wake of the Special Councel investigation and Mueller Report.  EPA-EFE/SAM CORUM
Roger Stone. Mynd: EPA-EFE - EPA
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, náðaði í gær 26 manns, þar á meðal samherja sinn til áratuga, Roger Stone, fyrrverandi kosningstjóra sinn, Paul Manafort, og Charles Kushner, föður tengdarsonar síns og ráðgjafa, Jareds Kushners.

Margir gamlir félagar á meðal hinna náðuðu

Hefð er fyrir því að forsetar á útleið náði nokkurn hóp dæmdra manna, veiti þeim uppreist æru eða mildi dóminn yfir þeim. Er þetta gert af mörgum og margvíslegum ástæðum. Oft er það gert að ráði mannréttindasamtaka og baráttuhópa fyrir réttarbótum, en ósjaldan eru gamlir samherjar á meðal hinna náðuðu. Samkvæmt New York Times er hlutfall gamalla samherja hins vegar óvenju hátt í hópi þeirra sem Trump hefur náðað til þessa.

Hefur náðað yfir 40 manns á tveimur dögum

Forsetinn fráfarandi fer af stað með sínar náðanir af miklu trukki, því hann náðaði 15 manns á þriðjudag og mildaði dóma fimm til viðbótar og hefur þar með náðað eða mildað dóma 46 manns á tveimur dögum.

Náðun Manaforts og Stones vekur athygli vestra, enda báðir þungavigtarmenn í ráðgjafateymi forsetans, ákærðir af Robert Mueller, sérstökum saksóknara, og sakfelldir fyrir fjölda brota. Manafort, sem er í stofufangelsi, var ákærður fyrir ýmis vafasöm viðskipti í tengslum við ráðgjafastörf hans fyrir þáverandi Úkraínuforseta. Hann lýsti sig samvinnufúsan en laug svo að saksóknurum ogv ar á endanum kærður og sakfelldur fyrir að hindra framgang réttvísinnar, ofan á allt annað.

Roger Stone laug að rannsóknanefnd þingsins til að hlífa forsetanum og var meðal annars dæmdur fyrir að hóta vitni og hindra framgang réttvísinnar, eins og Manafort. Öfugt við Manafort, sem afplánaði hartnær tvö ár í fangelsi áður en hann fékk að flytja heim í stofufangelsi, ekki síst vegna COVID-19, þá slapp Stone alveg við fangelsi því Trump mildaði dóm hans fyrr á þessu ári og sá til þess að hann þyrfti ekki að sitja inni.

Tengdafaðir Ivönku Trump náðaður

Charles Kushner, tengdafaðir Ivönku Trump, dóttur foresetans, var sóttur til saka í byrjun þessarar aldar af dyggum samherja Trumps til skamms tíma, Chris Christie, sem þá var ríkissaksóknari í New Jersey. Var hann ákærður fyrir fjölda skattalagabrota, saknæm afskipti af vitnum og ólögmætan fjárstuðning við framboð stjórnmálamanna.

Hann játaði sig á endanum sekan um 16 skattalagabrot, falskan vitnisburð fyrir alríkisnefnd og hefndaraðgerð gegn mági sínum, sem bar vitni í máli gegn honum fyrir alríkisdómstól.

Umdeildar náðanir á þriðjudag

Meðal þeirra sem Trump náðaði á þriðjudag voru tveir fyrrverandi þingmenn Repúblikana sem dæmdir voru fyrir fjármálamisferli og spillingu, George Papadopoulos, sem meðal annars var sakfelldur fyrir rangan vitnisburð í rannsók Roberts Muellers á afskiptum Rússa af kosningunum 2016, og fjórir bandarískir málaliðar, sem sakfelldir voru og sitja inni fyrir sinn þátt í fjöldamorði á írökskum borgurum í Bagdad árið 2007.  

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV