Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kári: Engu verið stolið frá okkar góða sóttvarnarlækni

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að viðræður við Pfizer um bóluefni gegn COVID-19 hafi átt sér stað án þess að hann ráðfærði sig við Þórólf Guðnason sóttvarnalækni eða sótt til hans hugmyndir.

Þetta segir Kári í yfirlýsingu. Þórólfur sagði fyrr í dag að hann hefði átt frumkvæði að viðræðum við lyfjaframleiðandann Pfizer, ekki Kári. Fréttablaðið greindi frá því í gær að Kári hefði rætt málið við forsvarsmenn lyfjafyrirtækisins til að reyna að útvega Íslendingum bóluefnið, en Lyfjastofnun veitti því markaðsleyfi á þriðjudaginn.

Kári segist hafa átt í þessum samskiptum án nokkurrar vitundar um viðræður Þórólfs við Pfizer. „Ég gerði það líka án þess að vita  að hann hefði sent tölvupóst til fulltrúa Pfizers á Íslandi. Það er því rangt hjá Þórólfi að ég hafi borið upp við stjórnendur Pfizer hugmyndir hans og að hugmyndir mínar hafi átt uppruna í hans,“ segir Kári.

Hann hafi unnið í tæpan aldarfjórðung að því að rannsaka ýmsa sjúkdóma hér á landi, „með því að nýta mér eiginleika þjóðarinnar sem einstakt þýði. Þar af leiðandi þurfti ég ekki að leita út fyrir Vatnsmýrina til þess að finna þessa hugmynd,“ segir Kári enn fremur í yfirlýsingunni.

„Það er heldur ekki að undra að aðrir í okkar samfélagi hafi fengið þessa hugmynd út af því fordæmi sem má finna í vinnu Íslenskrar erfðagreiningar. Það sem gladdi mig hins vegar í samtali við Luis Jodar sem leiðtogi í bóluefnadeild Pfizers er að hann var á undan mér að færa hugmyndina í orð. Það gleður mig líka að Þórólfur skyldi hafa komist að sömu niðurstöðu en hvorki ég né stjórnendur Pfizers vissum það þegar samtal okkar átti sér stað. Það hefur engu verið stolið frá okkar góða sóttvarnarlækni.“