Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Birta engar tölur yfir fjölda smita næstu daga

24.12.2020 - 07:30
Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra birtir engar tölur yfir fjölda kórónuveirusmita á upplýsingavefnum covid.is í dag, og heldur ekki næstu þrjá daga. Næstu tölur verða birtar mánudaginn 28. desember. Þá verða engar tölur birtar frá gamlársdegi og fram til 3. janúar.

Opnunartímar á sýnatökustöðvum verða með óhefðbundnum hætti á helstu hátíðisdögunum. Á jóladag verður ekki hægt að fara í sýnatöku neins staðar á landinu og heldur ekki á nýársdag. Flesta hina hátíðisdagana verður hægt að fara í sýnatöku hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, og á sumum sýnatökustöðvum heilbrigðisstofnana. Opnunartíminn er þó takmarkaður. 

Mynd með færslu
 Mynd: Embætti landlæknis

Í dag verður boðið upp á sýnatöku hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins til klukkan 11. Á Egilsstöðum verður aðeins skimað milli klukkan átta og hálfníu. Þá verður engin sýnataka hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands og heldur ekki hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík og Sauðárkróki. Á Höfn, í Vestmannaeyjum og á Akranesi verður heldur engin sýnataka í dag.