Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vill að þing komi saman vegna „óvissu um komu bóluefna“

Mynd með færslu
 Mynd:
Miðflokkurinn vill að þing komi saman, eigi síðar en 28. desember, „í ljósi þeirrar óvissu sem nú er uppi varðandi komu bóluefna vegna COVID-19 hingað til lands“. Nauðsynlegt sé að þingheimur fái tækifæri til að ræða málið við ríkisstjórnina. Þingflokksformaður Pírata tekur undir beiðni Miðflokksins og formaður Samfylkingarinnar segir þingflokkinn reiðubúinn að mæta í vinnunna þegar þörf er á. Formaður Viðreisnar segir eðlilegt að setja þessa kröfu fram

Í yfirlýsingu sem þingflokkur Miðflokksins sendi frá sér kemur fram að  undanfarna daga hafi birst mjög misvísandi upplýsingar um þá bóluefnasamninga sem gerðir hafa verið og ekki síður hvernig bólusetningu verði háttað. „Þar vegast upplýsingaóreiða og ráðaleysi stjórnvalda á.“

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir í samtali við fréttastofu að hann geri engar athugasemd við þessa tilkynningu Miðflokksins. Þingflokkurinn sé reiðubúinn að mæta í vinnuna þegar þörf sé á. Hann telji þó lang eðlilegast  að ríkisstjórnin svari þessari spurningu hvort það sé einhver vafi uppi um komu bóluefna. „Þetta er búið að vera alltof reikult og ég held að það væri öllum fyrir bestu ef stjórnin skýrði hver staðan væri raunverulega.“

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingflokksformaður Pírata, tekur undir beiðni Miðflokksins. Þetta sé mál málanna. „Það er mikið af misvísandi upplýsingum í samfélaginu, fólk er óttaslegið og það er mikilvægt að allt sé á hreinu.“  Jafnvel þótt ríkisstjórnin sé með góð svör og áhyggjurnar byggðar á misskilningi þá sé mikilvægt að leiðrétta það. 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir eðlilegt að setja þessa kröfu fram. Hún lýsir atburðum síðustu daga sem svakalegum klaufagang en telur þó rétt að halda ró sinni.  „Við vonumst til að ríkisstjórnin sé að gera sitt besta. Þau hafa eitthvað klúðrað í upphafi og við ætlumst til þess að þau séu að laga það.“ Hún segir ráðherra mega taka þríeykið sér til fyrirmyndar og viðurkenna þegar þeir gera mistök. Það hafi verið lýsandi að eitthvað væri að þegar forsætisráðherra ræddi við forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Eðlilegast sé að forseti þingsins ræði við þingflokksformenn.  

Töluverð gagnrýni hefur komið fram á ríkisstjórnina síðustu daga vegna stöðu bóluefna hér á landi, ekki síst eftir fréttir sem byggðu á úttekt Bloomberg-fréttastofunnar.

Stjórnvöld voru ósátt við það framsetningu úttektarinnar og sendu fréttaveitunni leiðréttingu. Ísland er nú komið ofar á lista Bloombergs og er sagt hafa tryggt sér bóluefni fyrir 435 þúsund manns.  

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur í vikunni rætt við bæði Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og framkvæmdastjóra hjá lyfjaframleiðandanum Pfizer.  

Reiknað er með að fyrstu bóluefnaskammtarnir frá Pfizer komi til landsins 28. desember. Þeir verða tíu þúsund í fyrstu sendingu og síðan þrjú þúsund á viku eftir það. Ísland hefur auk þess gert samning við Janzen-fyrirtækið og AstraZeneca auk þess sem boðaður hefur verið undirritun samnings við Moderna á gamlársdag.