Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tíu efstu í kjöri íþróttamanns ársins 2020

Mynd: Sigurður Kristján Þórisson / RÚV Grafík

Tíu efstu í kjöri íþróttamanns ársins 2020

23.12.2020 - 06:00
Samtök íþróttafréttamanna birtu í dag listann yfir þá tíu íþróttamenn sem flest atkvæði fengu í kjörinu á íþróttamanni ársins 2020. Þrír sem þegar hafa hlotið nafnbótina eru meðal tíu efstu í kjörinu í ár. Úrslitin úr kjörinu verða kynnt þriðjudagskvöldið 29. desember í beinni útsendingu RÚV. Útsendingin hefst klukkan 19:40.

Samtök íþróttafréttamanna hafa kjörið íþróttamann ársins frá árinu 1956. Fyrstur til að hljóta nafnbótina var Vilhjálmur Einarsson þrístökkvari. Vilhjálmur hefur jafnframt oftast hlotið titilinn eða fimm sinnum. Næst oftast hefur Ólafur Stefánsson handboltamaður hlotið heiðurinn, eða fjórum sinnum. Einar Vilhjálmsson spjótkastari varð svo íþróttamaður ársins þrisvar, sem og Strandamaðurinn sterki, Hreinn Halldórsson kúluvarpari og Örn Arnarson sundmaður.

Það íþróttafólk sem fékk flest atkvæði í kjörinu þetta árið og er í efstu tíu sætunum er í stafrófsröð:

Anton Sveinn McKee

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Anton Sveinn McKee, sundmaður úr Sundfélagi Hafnarfjarðar. Anton Sveinn varð atvinnumaður á árinu þegar hann fékk samning hjá kanadíska liðinu Toronto Titans. Liðið var eitt af tólf sem kepptu í Alþjóðlegu ISL sunddeildinni, International Swimming League, í haust. Hann bætti bæði Íslands og- Norðurlandamet í 100 og 200 metra bringsundi í 25 metra laug. Að auki vann hann báðar greinar í mótum á ISL mótaröðinni. Anton Sveinn er eini Íslendingurinn sem hefur nú þegar tryggt sér keppnisrétt á Ólympíuleikunum á næsta ári.

Þetta er í annað sinn, og annað árið í röð sem Anton Sveinn McKee er meðal tíu efstu í kjörinu á íþróttamanni ársins.

Aron Pálmarsson

epa08125377 Iceland's Aron Palmarsson in action during the Men's EHF EURO 2020 Handball preliminary round match between Iceland and Russia in Malmo, Sweden, 13 January 2020.  EPA-EFE/ANDREAS HILLERGREN  SWEDEN OUT
 Mynd: EPA

Aron Pálmarsson, handboltamaður hjá Barcelona á Spáni. Aron vann allt sem hægt var að vinna á Spáni með Barcelona, en liðið lék nærri 60 leiki í röð án taps í öllum mótum. Þá var Aron eini Íslendingurinn sem komst í úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu nú milli jóla og nýárs. Barcelona er eina taplausa liðið í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í haust og vetur. Aron lék einnig vel á köflum með landsliðinu, einkum þegar það sigraði Dani á EM.

Þetta er í áttunda sinn sem Aron Pálmarsson er meðal tíu efstu í kjörinu. Aron hlaut nafnbótina íþróttamaður ársins árið 2012. Hann var í fyrsta sinn meðal tíu efstu árið 2010.

Bjarki Már Elísson

epa08125528 Iceland's Bjarki Mar Elisson reacts during the Men's EHF EURO 2020 Handball preliminary round match between Iceland and Russia in Malmo, Sweden, 13 January 2020.  EPA-EFE/ANDREAS HILLERGREN  SWEDEN OUT
 Mynd: EPA

Bjarki Már Elísson, handboltamaður hjá Lemgo í Þýskalandi. Bjarki Már varð markakóngur efstu deildar Þýskalands í handbolta í vor þegar keppni var hætt. Hann er þriðji Íslendingurinn sem verður markakóngur í þessari sterku deild. Bjarki skoraði 216 mörk á leiktíðinni í þýsku deildinni, 14 mörkum meira en sá næstmarkahæsti. Þá skoraði Bjarki Már flest mörk íslensku landsliðsmannana á Evrópumótinu í Svíþjóð í janúar og er orðinn lykilmaður í landsliðinu.

Þetta er í fyrsta sinn sem Bjarki Már er meðal tíu efstu í kjörinu á íþróttamanni ársins.

Glódís Perla Viggósdóttir

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Glódís Perla Viggósdóttir, knattspyrnukona hjá Rosengård í Svíþjóð. Glódís Perla var lykilmaður í vörn Rosengård sem endaði í öðru sæti í sænsku úrvalsdeildinni. Hún var einn besti leikmaðurinn í deildinni í ár og var tilnefnd sem besti varnarmaðurinn. Glódís var kjörin sjöundi besti leikmaður deildarinnar í vali Damallsvenska Nyheter. Þá var hún fastamaður í vörn íslenska landsliðsins sem tryggði sér á árinu sæti í lokakeppni EM.

Þetta er í annað sinn og jafnfram annað árið í röð sem Glódís Perla er meðal tíu efstu í kjörinu.

Guðni Valur Guðnason

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Guðni Valur Guðnason, kringlukastari úr ÍR. Guðni Valur bætti Íslandsmetið í kringlukasti á árinu og bætti þar með 31 árs gamalt met Vésteins Hafsteinssonar. Árangurinn hefði dugað Guðna inn á Ólympíuleikana á næsta ári ef lágmarkatímabilið hefði verið opið þegar hann setti Íslandsmetið. Guðni Valur átti fimmta lengsta kast ársins í heiminum og vann um leið stigahæsta afrek Íslendings frá upphafi miðað við stigatöflu Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins.

Þetta er í fyrsta sinn sem Guðni Valur er meðal tíu efstu í kjörinu á íþróttamanni ársins.

Gylfi Þór Sigurðsson

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Gylfi Þór Sigurðsson, knattspyrnumaður hjá Everton í Englandi. Gylfi var lykilmaður í að koma Íslandi í úrslitaleik um sæti í lokakeppni EM næsta sumar, þegar hann skoraði bæði mörk Íslands í 2-1 sigri á Rúmeníu í undanúrslitum umspilsins. Gylfi fylgdi því svo eftir með marki beint úr aukaspyrnu á móti Ungverjum í úrslitaleiknum, sem þó tapaðist. Gylfi hefur á árinu spilað hluta leikja Everton í ensku úrvalsdeildinni.

Þetta er í tíunda sinn sem Gylfi Þór Sigurðsson er meðal tíu efstu í kjörinu. Gylfi hefur tvisvar hlotið sæmdarheitið íþróttamaður ársins, árin 2013 og 2016. Hann var í fyrsta sinn á meðal tíu efstu árið 2010 og svo allar götur frá 2012.

Ingibjörg Sigurðardóttir

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Ingibjörg Sigurðardóttir, knattspyrnukona hjá Vålerenga í Noregi. Ingibjörg varð á árinu norskur meistari með Vålerenga. Hún var meðal markaskorara í lokaumferð deildarinnar þegar liðið tryggði sér meistaratitilinn. Í kjölfarið var hún valin besta knattspyrnukona norsku deildarinnar í ár og varð bikarmeistari með Vålerenga eftir sigur á Lilleström í framlengdum úrslitaleik. Þá átti Ingibjörg fast sæti í vörn íslenska landsliðsins sem vann sér sæti í lokakeppni EM.

Þetta er í fyrsta sinn sem Ingibjörg er meðal tíu efstu í kjörinu.

Martin Hermannsson

Mynd með færslu
 Mynd: Valencia Basket

Martin Hermannsson, körfuboltamaður hjá Valencia á Spáni. Martin varð á árinu þýskur meistari með Alba Berlín. Hann skoraði að meðaltali 14 stig og gaf 4,5 stoðsendingar í úrslitunum. Martin varð einnig bikarmeistari með Berlínarliðinu og var valinn mikilvægasti leikmaður úrslitaleiksins. Martin samdi svo við spænska liðið Valencia í sumar og spilaði í Evrópudeildinni, Euroleague, með liðum sínum allt árið.

Þetta er í fjórða sinn sem Martin Hermannsson er meðal tíu efstu í kjörinu. Hann hafnaði í 2. sæti kjörsins í fyrra á eftir Júlían J. K. Jóhannssyni kraftlyftingamanni sem vann.

Sara Björk Gunnarsdóttir

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Sara Björk Gunnarsdóttir, knattspyrnukona hjá Lyon í Frakklandi. Sara Björk varð bæði þýskur meistari og bikarmeistari með Wolfsburg á árinu. Hún gekk svo í raðir franska stórliðsins Lyon í sumar og vann Meistaradeild Evrópu með Lyon eftir að hafa lagt Wolfsburg að velli í úrslitum. Sara Björk skoraði raunar þriðja markið í úrslitaleiknum sem fór 3-1. Sara er fyrsta íslenska knattspyrnukonan til að vinna Meistaradeildina. Þá var hún fyrirliði og lykilmaður í íslenska landsliðinu sem tryggði sér sæti á EM í Englandi.

Þetta er í níunda sinn sem Sara Björk Gunnarsdóttir er meðal tíu efstu í kjörinu. Sara hlaut nafnbótina íþróttamaður ársins 2018. Hún var fyrst á topp 10 listanum árið 2011 þegar hún endaði í 4. sæti. Hún hefur svo verið samfleytt á listanum frá og með árinu 2013.

Tryggvi Snær Hlinason

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Tryggvi Snær Hlinason, körfuboltamaður hjá Casademont Zaragoza á Spáni. Tryggvi Snær hefur spilað vel með liði sínu á Spáni í ár og er sá sem hefur átt flestar troðslur í deildinni. Þá er hann meðal þeirra tuttugu sem eru með hæsta framlagið að meðaltali í leik í spænsku deildinni. Tryggvi Snær var besti landsliðsmaður Íslands í körfubolta á árinu þegar horft er í tölfræði, með 17,8 stig að meðaltali í leik og 12,3 fráköst. Hann var sérlega öflugur í sigri á Slóvakíu í Laugardalshöll í febrúar þar sem hann skoraði 26 stig og tók 17 fráköst.

Þetta er í fyrsta sinn sem Tryggvi Snær Hlinason er meðal tíu efstu í kjörinu á íþróttamanni ársins.

Í fyrra var það kraftlyftingamaðurinn Júlían J. K Jóhannsson sem var kjörinn íþróttamaður ársins. Þrjú þeirra sem eru á topp tíu listanum í ár hafa áður hlotið nafnbótina. Það eru Aron Pálmarsson, Gylfi Þór Sigurðsson og Sara Björk Gunnarsdóttir. Úrslitin úr kjörinu verða kynnt í beinni útsendingu þriðjudagskvöldið 29. desember á RÚV. Útsendingin hefst klukkan 19:40.

Þrír efstu þjálfarar ársins

En það verður ekki bara tilkynnt um úrslitin í kjöri íþróttamanns ársins í beinni útsendingu 29. desember. Þar verður úrslitum í kjörinu á liði ársins og þjálfara ársins einnig kynnt.

Samtök íþróttafréttamanna hafa valið þjálfara ársins frá og með árinu 2012. Þrír efstu þjálfararnir í ár eru þessir í stafrófsröð:

Arnar Þór Viðarsson

Mynd með færslu
 Mynd:

Arnar Þór Viðarsson, knattspyrnuþjálfari 21 árs landsliðs Íslands. Undir stjórn hans vann 21 árs landsliðið sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins á næsta ári. Þetta er aðeins í annað sinn sem Ísland kemst á stórmót í þessum aldursflokki. Íslenska liðið vann þrjá af fjórum leikjum sínum á árinu.

Þetta er í fyrsta sinn sem Arnar Þór Viðarsson er meðal þriggja efstu í kjörinu á þjálfara ársins.

Elísabet Gunnarsdóttir

Mynd með færslu
 Mynd: Aftonbladet - RUV

Elísabet Gunnarsdóttir, knattspyrnuþjálfari hjá Kristianstad í Svíþjóð. Undir stjórn Elísabetar endaði Kristianstad í 3. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar í ár, sem er besti árangur félagsins. Með árangrinum vann Kristianstad sér sæti í Meistaradeild Evrópu í fyrsta sinn. Þá var Elísabet valin besti þjálfari sænsku deildarinnar í annað sinn og fékk að auki heiðursverðlaun á uppskeruhátíð sænsku deildarinnar.

Þetta er í annað sinn sem Elísabet Gunnarsdóttir er meðal þriggja efstu í kjörinu á þjálfara ársins. Elísabet hafnaði í 3. sæti árið 2017.

Heimir Guðjónsson

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Heimir Guðjónsson, knattspyrnuþjálfari hjá Val. Heimir gerði karlalið Vals að Íslandsmeisturum í ár. Valur var með yfirburðarstöðu þegar Íslandsmótið var blásið af vegna kórónuveirufaraldursins og á góðri leið með að slá stigametið í deildinni. Þá komst Valur einnig í undanúrslit Mjólkurbikarsins, en bikarkeppnin var ekki kláruð frekar en Íslandsmótið.

Þetta er í fyrsta sinn sem Heimir Guðjónsson er meðal þriggja efstu í kjörinu á þjálfara ársins.

Þrjú efstu lið ársins

Lið ársins verður einnig útnefnt þriðjudagskvöldið 29. desember. Samtök íþróttafréttamanna hafa kosið lið ársins frá árinu 2012. Þrjú efstu liðin í kjörinu þetta árið eru í stafrófsröð þessi:

21 árs landslið karla í knattspyrnu

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

21 árs landslið karla í knattspyrnu. Íslenska liðið tryggði sér á árinu sæti í lokakeppni Evrópumótsins sem hefst í Ungverjalandi og Slóveníu í mars. Þetta er aðeins í annað sinn sem Ísland kemst á stórmót í þessum aldursflokki. Íslenska liðið vann þrjá af fjórum leikjum sínum í undankeppninni á árinu.

Þetta er í fyrsta sinn sem 21 árs landslið karla í fótbolta er meðal þriggja efstu í kjörinu á liði ársins.

Kvennalið Breiðabliks í knattspyrnu

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Kvennalið Breiðabliks í knattspyrnu. Blikar urðu Íslandsmeistarar á árinu eftir hreint ótrúlega byrjun í mótinu. Blikar unnu fyrstu níu leiki Pepsi Max deildarinnar og fengu raunar ekki á sig mark í öllum þessum níu leikjum, sem er met. Blikar unnu báða leikina á móti Val, sínum helstu keppinautum. Þá var Breiðablik enn með í bikarkeppninni þegar keppni var blásin af í haust.

Þetta er í fyrsta sinn sem meistaraflokkur kvenna í fótbolta hjá Breiðabliki er meðal þriggja efstu í kjörinu á liði ársins.

Kvennalandslið Íslands í knattspyrnu

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Kvennalandslið Íslands í knattspyrnu. Landsliðið tryggði sér á árinu sæti í lokakeppni Evrópumótsins sem haldið verður sumarið 2022 á Englandi. Ísland spilaði fimm leiki í  undankeppni EM á árinu og vann þrjá þeirra og gerði eitt jafntefli. Jafnteflið kom á móti Svíþjóð, silfurliði síðustu Ólympíuleika og bronsliði HM. Íslenska liðið var í raun óheppið að vinna ekki þann leik. EM í Englandi verður fjórða Evrópumótið í röð sem Ísland kemst inn á.

Kvennalandslið Íslands í fótbolta hefur tvisvar áður verið meðal þriggja efstu í kjörinu á liði ársins. Árin 2013 og 2016 hafnaði liðið í 2. sæti kjörsins.