Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þing rofið í Ísrael og kosningar boðaðar í mars

23.12.2020 - 00:47
Erlent · Asía · Ísrael · Stjórnmál
Benny Gantz, varnarmálaráðherra Ísraels (t.v.) og Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra
 Mynd: epa
Ísraelska þingið, Knesset, var formlega rofið á miðnætti, þar sem ríkisstjórn Likud-flokksins og Bláhvíta bandalagsins mistókst hvort tveggja að ljúka fjárlagagerð innan lögbundins frests og að fá frumvarp sitt um frekari frest til að ljúka því samþykkt á þinginu.

Ríkisstjórninni bar að leggja fram frumvarp til fjárlaga næsta árs fyrir miðnætti en fyrirséð var að það myndi ekki takast. Því lagði stjórnin fram frumvarp sem heimilaði frestun fjárlagagerðarinnar til áramóta. Segja stjórnmálaskýrendur að leiðtogar ríkisstjórnarinnar, þeir Benjamin Netanyahu og Benny Gantz, hafi talið fullvíst að það frumvarp yrði samþykkt. Raunin varð önnur því 47 þingmenn studdu það en 49 voru á móti.

Fjórir stjórnarþingmenn gengu úr skaftinu

Þrír þingmenn Bláhvíta bandalagsins og einn þingmaður Likud-flokksins voru í hópi þeirra sem felldu frumvarpið. Einn fjórmenninganna skrifaði á Twitter að hann væri sáttur við að hafa fellt stjórnina, sem hefði haldið Ísrael í pólitískri gíslingu til þess eins að hanga á völdum. Gengið verður til kosninga í Ísrael þann 23. mars næstkomandi. Verða það fjórðu þingkosningarnar þar í landi á innan við tveimur árum.  
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV