Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Skipstjóri ákærður fyrir brot á sjómannalögum

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Lögreglan á Vestfjörðum hefur gefið út ákæru á hendur skipstjóra togarans Júlíusar Geirmundssonar vegna hópsýkingar sem varð þar um borð í október.

Skipstjórinn er ákærður fyrir brot á 34. grein sjómannalaga. þar segir að veikist skipverji eða slasist skuli skipstjóri sjá um að hann fái nauðsynlega umönnun á skipinu eða í landi. Jafnframt að ef ástæða sé til að ætla að skipverji sé haldinn sjúkdómi sem hætta stafar af fyrir aðra menn á skipinu skuli skipstjóri láta flytja sjúklinginn í land, ef eigi reynist unnt að verjast smithættu á skipinu. 

22 af 25 skipverjum togarans sýktust af COVID-19 i þriggja vikna veiðiferð í október. Einkenna varð vart meðal áhafnar strax á fyrstu dögum ferðarinnar. 

Þingfest fyrir héraðsdómi í janúar

Ákæran hefur ekki verið birt skipstjóranum. Málið verður þingfest fyrir héraðsdómi Vestfjarða í janúar og tekur þá skipstjórinn afstöðu til sakarefnisins. Lögreglan gat ekki gefið út ákæru strax að lokinni rannsókn vegna þess að samkvæmt sjómannalögum skal fyrst fá álit frá Samgönguráðuneytinu. Að sögn lögreglustjóra tók ráðuneytið ekki afstöðu til málsins. 

Skipstjóri fylgdi ekki fyrirmælum læknis

Sjópróf fór fram í málinu fyrir mánuði. þar sagðist sóttvarnalæknir hafa verið skýr við skipstjóra um að halda ætti í land með veika menn til sýnatöku, en skipstjórinn hlýddi ekki. Í sjóprófinu sögðust margir skipverjanna enn kljást við líkamleg og sálræn eftirköst.