Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Ríkið styrkir hjálparsamtök fyrir jólin

23.12.2020 - 12:06
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Níu hjálparsamtök fá 20 milljón króna viðbótarstyrk frá ríkinu til að styðja við viðkvæma hópa í samfélaginu með matarúthlutun og ráðgjöf. Aukin eftirspurn hefur orðið í samfélaginu eftir efnislegri aðstoð, ekki síst nú í aðdraganda jóla.

Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra tilkynnti um fjárveitingu félagsmálaráðuneytisins til málaflokksins í morgun. Þau hjálparsamtök sem fá styrk eru Hjálpræðisherinn, Hjálparstarf kirkjunnar, Mæðrastyrksnefndir í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Akureyri og Akranesi, Fjölskylduhjálp Íslands og Kaffistofa Samhjálpar.

„Í stað gleði og tilhlökkunar í aðdraganda jóla þá er það einmitt þessi tími sem veldur hvað mestum kvíða, áhyggjum og einsemd hjá okkar viðkvæmasta hópi í samfélaginu. Það er bæði mikilvægt og ánægjulegt að geta stutt einstaklinga og fjölskyldur sem á þurfa að halda með þessum hætti.“ segir Ásmundur í tilkynningu ráðuneytisins. 

Aðsókn til samtakanna sem hljóta styrk hefur aukist mikið á árinu og hefur álagið verið mikið fyrir þessi jól. Margir finna bæði fyrir efnislegum skorti en ekki síður fyrir félagslegri einangrun. Hjálpræðisherinn og Kaffistofa Samhjálpar hafa undanfarin ár boðið upp á jólamáltíðir sem skiptir fólk miklu máli á erfiðum tímum og verður það einnig gert í ár eftir því sem hægt er í samræmi við samkomutakmarkanir.