Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hreinsunarstarf hafið á fullu á Seyðisfirði

23.12.2020 - 11:34
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir - RÚV
Hreinsunarstarf er í fullum gangi á Seyðisfirði eftir skriðuföllin í seinustu viku og um helgina. Hátt í 200 Seyðisfirðingar halda jól utan heimila sinna en um 100 manns fengu að snúa heim í gærkvöld. Hlé verður gert á hreinsunarstarfi vegna hlýinda sem eru í kortunum.

Davíð Auðbergsson varðstjóri og vettvangsstjóri á Seyðisfirði segir að í dag sé frost og lygnt á Seyðisfirði. Hreinsunarstarf er hafið á fullu og unnið sé að því að tryggja persónulega muni og varna því að brak og lausamunir fjúki af stað. Þó að frost sé í dag er spáð hlýnandi veðri næstu daga.

„Við vitum af þessum hlýindum og það er stefnan að vera að störfum í dag og reyna að klára það sem nauðsynlega þarf að klára í hreinsunarstarfi og foktryggingu og fergjun og hægja svo á og vera með litlar eða engar aðgerðir á þessum hlýindatíma. Þar verður ekki farið inn á lokuð svæði nema að brýna nauðsyn beri til. Stefnan er sú, ef dagurinn í dag gengur vel að það verði hægt að loka svæðinu yfir hlýindatímann og vera ekki með störf,“ segir Davíð.

Hann segir að skriðuhætta sé ekki talin mikil, en menn fari með mikilli gát samt sem áður.

„Við allavega höfum ákveðið að fara að öllu með gát og vera ekki inni á lokuðum svæðum í samráði við sérfræðinga Veðurstofunnar en það er ekki spáð mikilli úrkomu og allur er varinn góður.“ segir Davíð.

Hann segir að vatn sé enn í kjöllurum húsa og verið sé að dæla upp úr þeim. Í gærkvöldi fengu um 100 manns að snúa aftur til síns heima, en rýming er enn í gildi fyrir heimili hátt í 200 Seyðisfirðinga.

„Því miður. Ákvörðun um frekari rýmingu verður tekin 27.des og þangað til er þetta óbreytt,“ segir Davíð.

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir - RÚV