Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Eins og maður eigi hvergi heima“

23.12.2020 - 19:10
Mynd: Hjalti Stefánsson / RÚV
Þetta er eins og að eiga hvergi heima, segir einn hátt í tvö hundruð Seyðfirðinga sem ekki geta verið heima hjá sér um jólin. Hún segir að það séu þó ljósir punktar í myrkrinu. Hreinsunarstarf hófst af fullum krafti í bænum í dag.

„Nú er að byrja hreinsunarstarf hjá okkur hér á Seyðisfirði, í kjölfar hörmunga. Það gengur vel, búið að ganga vel í dag. Veður er gott og við erum að nýta birtuna eins vel og við getum. Þannig að hér er verið að vinna í því að tryggja vettvang og bjarga verðmætum eins og hægt er,“ segir Davíð Auðbergsson, varðstjóri og vettvangsstjóri á Seyðisfirði.

Er verið að reyna að koma í veg fyrir tjón af völdum foks?

„Akkúrat, það er meðal annars verið að fergja og tryggja gagnvart foki. Og unnið að hreinsun, drenun á vatni og öðru slíku eins og hægt er. “

Það var um það bil tíu stiga frost á Seyðisfirði í dag en undir þeim kringumstæðum er lítil sem engin hætta á skriðuföllum. Það á hins vegar að fara að hlýna aftur á morgun og þá eykst hættan að nýju.

„Það er kalt í dag en spáir hlýnandi veðri næstu daga. Á meðan sá kafli gengur yfir verður ekki unnið hér á lokaða svæðinu. Vinna mun liggja niðri og við munum hefjast aftur handa 27. desember miðað við núverandi rýmingaráætlun,“ segir Davíð.

Æðruleysi

Um 100 Seyðfirðingar fengu að fara heim til sín í gær eftir að rýmingu á ákveðnum svæðum var aflétt. Á annað hundrað manns fá hins vegar ekki að fara heim til sín fyrr en í fyrsta lagi 27. desember, þegar staðan verður endurmetin. Á meðal þeirra eru hjónin Guðjón Már Jónsson og Ólafía Þórunn Stefánsdóttir.

„Við eigum sumarbústað inni á Völlum þar sem við ætlum að eyða jólunum, og svo hérna hjá dóttur minni í Fellabæ,“ segir Ólafía.

Hvernig tilfinning er það, að geta hreinilega ekki verið heima hjá sér á jólunum?

„Það er dálítið skrítið, það er eins og maður eigi hvergi heima.“

Þau hjónin voru búin að gera allt klárt fyrir jólin þegar ósköpin dundu yfir.

„Við fengum að fara aðeins heim í gær, í lögreglufylgd, og ná í sparifötin og jólamatinn og svona.“

Móðir Ólafíu, Guðrún Auðunsdóttir, býr á hjúkrunarheimili á Seyðisfirði sem einnig var rýmt. Hún verður hjá barnabarni sínu yfir jólin.

„Hún sýnir líka bara þetta æðruleysi og hún er bara þakklát fyrir að fá að vera hérna hjá Helgu dóttur minni og Ása tengdasyni mínum og hennar fjölskyldu. Svo erum við líka að kljást við COVID. Ef hún hefði ekki þurft að flytja hefðum við ekki mátt borða með henni á aðfangadag. Þannig að það eru pínu ljósir punktar í þessu líka, þannig að hún getur verið með okkur á aðfangadag,“ segir Ólafía.