Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Vísbendingar um að Íslendingar gefi dýrar jólagjafir

Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Lausleg könnun Morgunblaðsins á vinsælum jólagjöfum þetta árið bendir til þess að Playstation 5-leikjatölva hafi notið einna mestra vinsælda. Hún er nú uppseld hér á landi eins og víðast hvar annars staðar.

Morgunblaðið hefur eftir Þórönnu K. Jónsdóttur, markaðs- og kynningarstjóra hjá Samtökum verslunar og þjónustu, að vinsælustu jólagjafirnar í ár séu ekkert slor; „þó að ekki hafi það allir gott erum við Íslendingar upp til hópa óttalegar dekurdósir.“

Snjall- og raftæki af ýmsu tagi, jafnvel plötuspilarar, eru vinsælar jólagjafir og sömuleiðis tískuvörur á borð við dýra íþróttaskó. Könnunin bendir einnig til að mikill áhugi sé á náttfötum og borðspilum sem sé til marks um aukna heimaveru á tímum kórónuveirufaraldurs.

Í máli Þórönnu kemur einnig fram að gjafabréf á hótelgistingu sé val margra sem sé vissulega jákvæður stuðningur við íslenska ferðaþjónustu.